136. löggjafarþing — 79. fundur,  11. feb. 2009.

áform ríkisstjórnarinnar um uppbyggingu álvers á Bakka við Húsavík.

[14:23]
Horfa

Arnbjörg Sveinsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Menn verða að hafa til þess kjark og þor að taka þær ákvarðanir sem þarf. (Gripið fram í: Rétt.) (Gripið fram í: Já.) Það þarf að hafa kjark og þor til þess, (Gripið fram í.) undan því verður ekki vikist. Ábyrgðin er á höndum ríkisstjórnarinnar og undir henni verður ríkisstjórnin að standa. (Gripið fram í.) Hér verður hæstv. forseti að tala skýrar en verið hefur og eyða allri óvissu hvað þetta atriði varðar. (Gripið fram í.)

Þess utan má segja að líf stjórnarinnar sé að veði. Það hvor ráðherrann verður ofan á í málinu, ráðherra umhverfismála eða ráðherra iðnaðarmála, getur ráðið nokkru um langlífi stjórnarinnar, enda hefur varaformaður Framsóknarflokksins talað nokkuð skýrt hvað það varðar. Hann mun ekki verja ríkisstjórn sem reynir að koma í veg fyrir að álver á Bakka verði að veruleika, hann mun ekki verja þá ríkisstjórn vantrausti.

Hæstv. forseti. Nú standa yfir samningaviðræður um hvað tekur við eftir að Kyoto-bókuninni sleppir. Það er því afar brýnt að ráðherrann svari því hvert hennar upplegg varðandi þau mál verður. Ætlar hún að beita sér fyrir því að losunarkvóti fáist fyrir þessari framkvæmd? Ætlar ráðherrann að gera það eða ætlar hún að nýta þetta tækifæri sem hún hefur til að leggja stein í götu verkefnisins? Það er mjög mikilvægt að ráðherrann svari því og ég óska eftir að hún geri það.

Ég vil að lokum ítreka það sem fram kom áðan, að nú eru slíkir tímar að kjarkur og þor verður að duga til að ná fram þessu atvinnutækifæri sem er til þess að nýta náttúruauðlindir okkar og verður til þess að byggja upp (Forseti hringir.) efnahag þjóðarinnar til framtíðar.