136. löggjafarþing — 79. fundur,  11. feb. 2009.

áform ríkisstjórnarinnar um uppbyggingu álvers á Bakka við Húsavík.

[14:25]
Horfa

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Eftir 10 ára stjórnmálaþátttöku Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs ætti flestum að vera ljós stefna okkar í orku- og stóriðjumálum. Ég ætla því ekki að fara yfir hana í stuttu innleggi um áform ríkisstjórnarinnar um uppbyggingu álvers á Bakka, enda eru engin ný áform um álver á dagskrá þessarar ríkisstjórnar. Verkefni þessarar ríkisstjórnar eru fyrst og fremst brýnustu verkefni til að forða enn frekari álögum á þjóðina og þá fyrst og fremst til að verja heimilin og halda atvinnulífi gangandi með raunhæfum hætti.

Af fjölmörgum ástæðum eru öll áform um ný álver óraunhæf í dag. Í dag búum við og heimsbyggðin öll við efnahagskreppu sem knýr til nýrrar hugsunar í fjárfestingum og til atvinnusköpunar. Sjálfbærni verður að koma í stað óheftrar markaðsvæðingar. Meira að segja grannar okkar í vestrinu eru að átta sig á þessu og eru að líta til annarra átta.

Við þessar aðstæður hefur áliðnaðurinn lýst því yfir að dregið verði saman á næstunni, verksmiðjum lokað og nýjar ekki reistar í bráð. Alcoa er þar engin undantekning. Staða málsins er sú að áhugi Alcoa er dvínandi. Það birtist m.a. í þeirri staðreynd að fyrirtækið var ekki tilbúið til að leggja í frekari rannsóknarkostnað á Þeistareykjum í fyrrahaust og Norðurþing getur ekki beðið eftir svari og haldið frá öðrum hugsanlegum orkukaupendum um óákveðinn tíma.

Hæstv. forseti. Nú hafa borist fréttir af því að aðrir áhugasamir aðilar hafi óskað eftir viðræðum um orkukaup og staðsetningu minni og vistvænni verksmiðju á Húsavík. Uppbygging hágæðakísilverksmiðju hér á landi er ein af mörgum raunhæfum leiðum til atvinnusköpunar. Framleiðsla á sólarkísli er mun umhverfisvænni en á áli en þessi framleiðsla (Forseti hringir.) er þó ekki mengunarlaus frekar en annar iðnaður og, hæstv. forseti, ég þarf ekki að taka það fram að hugsanleg kísilflöguverksmiðja (Forseti hringir.) verður að standast umhverfis- og arðsemismat.