136. löggjafarþing — 79. fundur,  11. feb. 2009.

áform ríkisstjórnarinnar um uppbyggingu álvers á Bakka við Húsavík.

[14:34]
Horfa

Ólöf Nordal (S):

Herra forseti. Ég held að það hljóti bara að vera að hv. þm. Grétar Mar Jónsson sé að ganga í Samfylkinguna. Er það ekki svo að hann sé að taka að sér kosningastjórn fyrir hæstv. iðnaðarráðherra, svo hrósaði hann honum nú í þessum ræðuköflum áðan? En það er annað mál.

Ég hef bullandi áhyggjur af því að atvinnumálin í þessu landi séu að fara í verulegt óefni. Hæstv. umhverfisráðherra segir réttilega að þessi ríkisstjórn hafi skamman líftíma og að viljayfirlýsingin á milli aðila fyrir norðan gildi fram í september og eftir þann tíma sé óráðið, hún ráði ekkert yfir því hvað gerist í þessu millibilsástandi og það er akkúrat þarna sem áhyggjur mínar spretta. Það liggur alveg fyrir að Vinstri grænir hafa ekki nokkurn einasta áhuga á því að nýta orku til slíkra hluta sem hér er gert að umtalsefni. Það er talað um að fara þurfi í einhvern annan iðnað, einhvern iðnað sem losar minna. Sannleikurinn er sá að allur iðnaður losar koltvísýring og þessi nýi iðnaður Vinstri grænna losar margfalt fleira en sá iðnaður sem við höfum stólað á hér. Ég óttast að eftir kosningarnar í vor muni einhver slík stefna verða ofan á í þessu landi þannig að öll verkefni af þessum toga sem við erum að keppast núna fyrir á Norðurlandi muni stoppa. Það má bara ekki gerast. Það eina sem skiptir máli núna fyrir íslenska þjóð — og ég ætla ekki að elta ólar við kapp þingmanna hér — er að tryggja að við náum að skapa atvinnu fyrir fólk og skapa gjaldeyristekjur til að borga þær skuldir sem við okkur blasa, til að koma þjóðinni aftur upp á lappirnar. Það er verkefnið.

Ég ætla ekki að standa hérna í neinu rifrildi við fólk um það hver sé lýðskrumari og hver sé ekki lýðskrumari eins og hv. þm. og félagi framsóknarmaðurinn Höskuldur Þór Þórhallsson gerði áðan. (Gripið fram í.) En það þýðir ekki að tala með þessum hætti. (Gripið fram í.) Sannleikurinn er auðvitað sá að Framsóknarflokkurinn styður núverandi hæstv. umhverfisráðherra og þar með þvælist auðvitað fyrir þegar horft er til álversins á Bakka (Gripið fram í: Iðnaðarráðherra.) (Gripið fram í: ... uppbygginguna á Bakka.) Það er meginatriði (Forseti hringir.) fyrir þingmenn í þessum sal að hugsa um þetta, atvinnuuppbyggingu í landinu. Það er það sem við þurfum að gera, (Gripið fram í.) skapa gjaldeyristekjur. (Gripið fram í: Heyr! Heyr!)