136. löggjafarþing — 79. fundur,  11. feb. 2009.

útflutningur hvalafurða.

284. mál
[14:47]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ljóst er að Norðmenn hafa stundað hvalveiðar í atvinnuskyni í þó nokkur ár og það hefur gengið vel hjá þeim. Ljóst er að mjög margir hvalir eru hér við land. Í kringum landið og í Norður-Atlantshafinu eru líklega um 50.000 langreyðar og 50.000—70.000 hrefnur, þannig að mjög mikið er af hvölum þar. Það er rosalegt í versnandi heimi að geta ekki nýtt hvalinn. Ég styð því að við hefjum hvalveiðar.

Ég sagði að við hefðum stundað hvalveiðar frá örófi alda. Það er ekki rétt. Hér var borðaður rekinn hvalur og hv. þm. Mörður Árnason leiðrétti mig í þessu. En sjálf stunduðum við ekki hvalveiðar í stórum stíl nema á milli 1914 og 1988, í rúm 70 ár, og stórhveli voru kannski veidd í um 50 ár, svo að því sé nú öllu haldið til haga. En ljóst er að við eigum að nýta okkur þessa dýrategund eins og aðrar svo framarlega sem það er gert á sjálfbæran hátt og það er sannarlega sjálfbært að taka (Forseti hringir.) þessi fáu dýr sem búið er að ákveða.