136. löggjafarþing — 79. fundur,  11. feb. 2009.

uppbygging álvers í Helguvík.

293. mál
[15:01]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Við framsóknarmenn styðjum uppbyggingu stóriðju bæði á Bakka og í Helguvík. Það er ekki rétt sem hér kom fram að reynslan hræði. Það var alveg ljóst að fækkun yrði á starfsfólki fyrir austan þegar byggingu álvers væri lokið. Henni er lokið og ekkert óeðlilegt að starfsfólki fækki þar. En þar hafa skapast fjölmörg föst og afleidd störf. Auðvitað hefur þessi framkvæmd haft geysilega jákvæð áhrif og aukið útflutningstekjur þjóðarinnar um tugi prósentna.

Þegar við samþykktum Kyoto-bókunina og fengum íslenska ákvæðið vorum við ekki hluti af Evrópusambandinu. Við sömdum alveg sér og við börðumst fyrir því ákvæði. Það þarf að leggja sig fram til að ná árangri, það þarf að berjast fyrir málstað. Það gerðum við Íslendingar. Það var þess vegna sem umhverfisráðherrar allra þjóða samþykktu íslenska ákvæðið. Þeir vissu að það er vistvænt. Það er betra fyrir lofthjúpinn að hafa slíkt ákvæði en ekki. Er það ekki það sem er stærsta umhverfisógnun í dag, það er hækkun á hitastigi lofthjúpsins?

(Forseti hringir.) Ég skora á hæstv. umhverfisráðherra að endurskoða afstöðu sína (Forseti hringir.) og reyna að hjálpa til við að hitastig lofthjúpsins hækki ekki í framtíðinni.