136. löggjafarþing — 79. fundur,  11. feb. 2009.

uppbygging álvers í Helguvík.

293. mál
[15:04]
Horfa

Valgerður Sverrisdóttir (F):

Hæstv. forseti. Það voru orð hæstv. umhverfisráðherra sem fengu mig til að koma hingað upp. Hún sagði að reynslan í Fjarðabyggð hræddi. Það er að mínu mati ekki rétt hjá hæstv. ráðherra að nálgast málið með þeim hætti vegna þess að reynslan í Fjarðabyggð er afar góð. Ég get ekki hugsað þá hugsun til enda hvernig ástandið væri þar ef ekki hefði verið farið út í þessar framkvæmdir þar sem störfum í landbúnaði og sjávarútvegi hefur fækkað um fleiri hundruð á örfáum árum. Álverið á Reyðarfirði er að gera gríðarlega góða hluti fyrir austan.

Hvað varðar atvinnumál almennt, af því að hæstv. ráðherra talaði um að huga þyrfti að annars konar atvinnuuppbyggingu, þá er það þannig að alltaf er verið að horfa til allra átta. Ég veit að það var alla vega þannig með þá ríkisstjórn sem ég sat í. Það var alltaf verið að horfa til allra átta þó svo að þetta yrði niðurstaðan. Það er hægt að byggja upp álver og hugsa líka um aðra atvinnuuppbyggingu.