136. löggjafarþing — 79. fundur,  11. feb. 2009.

uppbygging álvers í Helguvík.

293. mál
[15:05]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S):

Virðulegi forseti. Varðandi þá umræðu sem hér hefur átt sér stað, eftir hádegi á hinu háa Alþingi, er rétt að taka fram að uppi hafa verið tvö stórmál sem eru umdeild og hafa verið það alllengi, þ.e. veiðar á hval og uppbygging stóriðju. Hvernig svo sem á því stendur, í þeirri umræðu sem fer fram í íslensku þjóðfélagi um þessar mundir, þá er verið að þybbast við meirihlutavilja þjóðarinnar í báðum þessum málum. Það liggur fyrir að meiri hluti er fyrir því meðal þjóðarinnar að fara að veiða hval og á Alþingi er meiri hluti fyrir því að veiða þessar skepnur. Meiri hluti er fyrir því meðal þjóðarinnar að byggja upp í áliðnaði og á þingi er meiri hluti fyrir því. Maður hlýtur að spyrja sig að því, hvers vegna í ósköpunum ekki er hægt að vinna þessum málum hraðari framgang en raun ber vitni á þessum vettvangi.

Það er ekki þannig að þetta sé eina úrræðið, langur vegur frá. Og blessunarlega eru iðnaðarráðherra og aðrir hæstv. ráðherrar í ríkisstjórn að vinna að öðrum lausnum, en þá er kallað eftir því að þær séu leiddar fram. Meðan það er ekki gert verður umræðan á þessu stigi miklu óeðlilegri en hún hefur verið meðan engin önnur svör fást.

(Forseti (ÞBack): Forseti vill áminna þingmenn um að gæta tímamarka, sérstaklega þegar tíminn er svona stuttur.)