136. löggjafarþing — 79. fundur,  11. feb. 2009.

uppbygging álvers í Helguvík.

293. mál
[15:10]
Horfa

Lúðvík Bergvinsson (Sf):

Virðulegi forseti. Aðeins vegna þeirrar umræðu sem hér fer fram, og er fyrirspurn frá hv. þm. Björk Guðjónsdóttur, þá liggur fyrir að í verkáætlun ríkisstjórnarinnar er kveðið afar skýrt á um að þær ákvarðanir sem hafa verið teknar standa. Ein af þeim ákvörðunum sem teknar hafa verið er að farið verður í uppbyggingu í Helguvík. Það liggur fyrir og því verður ekki breytt. (Gripið fram í: En Bakki?) Ekki hafa verið teknar ákvarðanir með sama hætti um Bakka en við þær ákvarðanir sem hafa verið teknar verður staðið og þá uppbyggingu sem hefur verið ákveðið að ráðast í. Það er afar mikilvægt að þetta sé skýrt og þetta hefði hv. þm. Björk Guðjónsdóttir átt að vita því að skýrt er kveðið á um þetta í verkáætlun ríkisstjórnarinnar. Hins vegar er öllum þingmönnum frjálst að spyrja þeirra spurninga sem þeir hafa áhuga á að spyrja, ekki ætla ég að gera athugasemdir við það.