136. löggjafarþing — 79. fundur,  11. feb. 2009.

uppbygging álvers í Helguvík.

293. mál
[15:11]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Björk Guðjónsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. umhverfisráðherra fyrir svörin en verð þó að segja að ég er engu nær um hvort hæstv. umhverfisráðherra muni greiða götu álvers í Helguvík eða ekki. En ég er auðvitað ánægð með að hæstv. umhverfisráðherra er mjög meðvituð um atvinnuástand á Suðurnesjum og mun ætla sér að verja ýmis störf sem hún taldi upp og ég tel það vissulega af hinu góða.

Ég vil benda hæstv. umhverfisráðherra á að stuðningur við álversframkvæmdir er mikill á Suðurnesjum og ekki síst núna þegar sverfur að í atvinnumálum. Það er ljóst að heimamenn binda auk þess miklar vonir við fjölþætt og vel launuð störf. Menn vilja styðja við þetta verkefni og nýta orkuauðlindirnar á Reykjanesi til atvinnusköpunar með þessum hætti. Það er því afar mikilvægt að hæstv. umhverfisráðherra standi með fólki og greiði götur álversframkvæmda alla leið.

Þrátt fyrir kreppu í heiminum í dag — verð á áli fer lækkandi, auk þess sem fréttir berast af lokun álvera — eru menn hér á landi bjartsýnir og horfa til þess að innan fárra ára birti til og álframleiðsla og verð á áli nái sér á strik. Það er gott að finna að engan bilbug er að finna á Norðurálsmönnum, þeir vilja halda verkinu áfram.

Hæstv. umhverfisráðherra minntist á grein Indriða H. Þorlákssonar og ég vil fá að minnast á grein sem er í Morgunblaðinu í dag skrifuð af Ágústi Hafberg, framkvæmdastjóra viðskiptaþróunar hjá Norðuráli — mjög góð grein sem ég hvet hæstv. umhverfisráðherra til að kynna sér. Að lokum vil ég taka undir það með Ágústi, í greininni sem hann skrifar, að atvinnuleysi á landinu er núna rúmlega 10% og því er spáð að það fari jafnvel upp í 20% þegar líða fer á árið. Það má velta því fyrir sér hversu miklu hærri atvinnuleysistölurnar væru ef Íslendingar hefðu ákveðið að nýta ekki orkuauðlindirnar.