136. löggjafarþing — 79. fundur,  11. feb. 2009.

virkjun sjávarfalla við Ísland.

282. mál
[15:17]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Sturla Böðvarsson) (S):

Hæstv. forseti. Um veröldina alla er leitað með logandi ljósi að nýtanlegri orku til iðnaðar- og heimilisnota á sem lægstu verði. Þeir kostir sem við Íslendingar horfum einkum til og höfum gert okkur gildandi á er virkjun jarðvarma og virkjun vatnsafls eins og þekkt er. Gerðar hafa verið tilraunir hér með virkjun vindorkunnar án teljandi árangurs. Nú horfa menn til þess að nýta orku sem kann að finnast í olíujarðlögum á landgrunninu og að virkja sjávarföllin.

Virkjun sjávarfalla til raforkuframleiðslu hefur tekið stórstígum framförum og hafa stórþjóðirnar unnið að þróun búnaðar til slíkra virkjana. Er rík ástæða til þess fyrir okkur Íslendinga að kanna alla kosti slíkra virkjana. Á orkuþingi árið 2006 var flutt erindi um sjávarorku og möguleika virkjana sjávarfalla við Ísland. Bar fyrirlesturinn yfirskriftina Nýir tímar, aðrir kostir . Virkjun sjávarorkunnar er á margan hátt heillandi viðfangsefni og gæti hugsanlega komið til móts við vaxandi kröfu á sviði umhverfismála. Virkjun sjávarorkunnar byggist á virkjun ölduhreyfingar, á virkjun sjávarfalla, á virkjun straumanna og virkjun hitastigsmunarins. Því miður liggja ekki fyrir teljandi rannsóknir á þessum kostum hér á Íslandi og stjórnvöld virðast ekki hafa markað sér stefnu um virkjun sjávarfalla enda má segja að virkjun jarðvarma og vatnsaflsins hafi verið nægjanlegt verkefni fyrir okkur hin síðari ár. Engu að síður þarf að horfa til framtíðar og kortleggja alla kosti okkar til að búa í haginn fyrir ókomnar kynslóðir, bæði með því að nýta kosti auðlindanna og með því að velja þá nýtingu sem raskar ekki möguleikum komandi kynslóða til að búa í landinu við sem mesta hagsæld og nýta auðlindir okkar í þágu þjóðarinnar.

Að mati þeirra sérfræðinga sem fjallað hafa um virkjun sjávarorkunnar við Ísland eru kostir mestir og bestir við virkjun í Breiðafirði þar sem munur flóðs og fjöru er mestur hér við land, yfir 5 metrar. Fyrirtækið Sjávarorka hefur í mörg ár unnið að skoðun kosta og hafa einstaklingar lagt ómælda vinnu í að hreyfa því að rannsóknir fari fram og metnir kostir málsins. Þess vegna hef ég borið svohljóðandi fyrirspurn undir hæstv. iðnaðarráðherra:

1. Hyggst ráðuneytið móta stefnu um virkjun sjávarfalla við Ísland?

2. Liggja fyrir einhverjar rannsóknir á vegum opinberra aðila um kosti og hagkvæmni sjávarfallavirkjana við Ísland?

3. Hyggst ráðuneytið beita sér fyrir stuðningi við þá sem metið hafa virkjunarkosti (Forseti hringir.) sjávarfalla í Breiðafirði?