virkjun sjávarfalla við Ísland.
Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. iðnaðarráðherra fyrir hans jákvæðu viðbrögð við fyrirspurnum og þeim ábendingum sem fram komu í fyrirspurninni og þeirri ræðu sem ég flutti vegna hennar. Aðeins vegna þess sem kom fram hjá hv. þm. Merði Árnasyni, það er rétt athugað hjá honum að ekki hafa verið margar fyrirspurnir hjá mér síðustu tíu árin af þeirri einföldu ástæðu að fyrstu átta ár þess tímabils var ég aðallega í því að svara fyrirspurnum og hin síðari ár að stjórna því að hv. þingmenn fengju gott tækifæri til að spyrja.
Að því slepptu tel ég afar mikilvægt að hæstv. iðnaðarráðherra fái gott tækifæri til þess að vinna í samræmi við það sem kom fram að er vilji hans. Hann nefndi hér í ræðunni að að auka þarf rannsóknir, ekki bara rannsóknir á nýtingu jarðhitans heldur einnig rannsóknir vegna nýtingar á sjávarfallakostunum og líka varðandi nýtingu vindorkunnar. Það er ekki rétt hjá hæstv. ráðherra að ég hafi afskrifað það. Hins vegar hefur ekki tekist vel upp í öllum tilfellum að nýta vindorkuna. Í mörgum nágrannalanda okkar er það gert og við þurfum að skoða það að sjálfsögðu.
Aðalatriðið í mínum huga er að horft verði til þess svæðis þar sem liggur fyrir að eru bestu kostirnir að nýta sjávarorkuna sem er Breiðafjörðurinn. Í því erindi sem ég nefndi og vitnaði til áðan er nefnt að í Breiðafirði virðist í framtíðinni hægt að framleiða mjög mikla raforku og með mjög lágum framleiðslukostnaði miðað við lauslegt mat (Forseti hringir.) þannig að í Breiðafirðinum liggur framtíðin hvað þetta varðar.