136. löggjafarþing — 79. fundur,  11. feb. 2009.

afhendingaröryggi raforku og virkjun vatnsfalla á Vestfjörðum.

283. mál
[15:49]
Horfa

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Ég fór og talaði við Pétur í Ófeigsfirði í fyrra og ég sannfærðist um að virkjun Hvalár og Rjúkanda væri hið besta mál. Við Pétur bóndi erum sammála um að það sé nauðsynlegt að ráðast í það verk sem allra fyrst. Ég hef komist að þeirri niðurstöðu eftir að hafa skoðað málið, eins og ég drap á undir lok máls míns áðan, að það þarf ekkert rannsóknarleyfi. Ástæðan er sú að lögin um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu gera ekki ráð fyrir að rannsóknarleyfi þurfi ef málum er háttað eins og er á Vestfjörðum, þ.e. það liggur fyrir samningur allra eigenda vatnsréttinda vegna rannsóknar og virkjunar við Vesturverk sem hefur þessar rannsóknir í undirbúningi. Það liggur því alveg ljóst fyrir og er í gadda slegið, svo maður tali vestfirsku, að þeir geta ráðist í það.

Ég átta mig ekki alveg á því hvað hv. þingmaður átti við þegar hann sagði að nú væri það verkefni iðnaðarráðuneytisins að tryggja að menn gætu selt orku frá þessari virkjun. Ef hv. þingmaður á við það að einhver tvísýna sé um að Landsnet muni leggja streng frá Hvalá til að tengjast kerfinu þá get ég fullvissað hann um að það er mikill vilji til þess af hálfu stjórnvalda og mun ekkert á það skorta. Ég hefði í sporum þingmannsins verið svolítið frekari og gengið fastar eftir því að Landsnet kæmi með öflugri hætti en því einu að málum. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að það sé óæskilegt að flytja út af Vestfjörðum það orkumagn sem hugsanlega verður framleitt í Hvalá, 37 megavött. Ég tel að við eigum að taka höndum saman um að reyna að finna atvinnukost sem getur nýtt þessa orku í héraði. Það er almennt stefna mín að þegar frá eru grunnþarfir borgaranna eigi ekkert að þvælast með orku víðs fjarri þeim stöðum þar sem hún er framleidd. Það á að reyna að nota hana þar og skapa atvinnu þar.

Ég þakka hv. þingmönnum fyrir þessa umræðu. Það munar um það þegar þingmenn koma og eru frekir við ráðherrann (Forseti hringir.) í þessum efnum. Ég get greint frá því að eftir að þingmenn gerðu hér harða hríð að byggðamálaráðherranum úr 101 í fyrra fóru þessi mál að snúast. (Forseti hringir.) Og ég get fullvissað frú forseta um það að ekki skortir atbeina ráðherrans til að kippa þessum málum í liðinn.