136. löggjafarþing — 80. fundur,  12. feb. 2009.

arðsemi álvera.

[10:37]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Herra forseti. Ég mæli eindregið með því að þessi úttekt verði gerð og lögð fram því ég gat ekki ráðið öðruvísi í orð hæstv. ráðherra en svo að hann deili einfaldlega skoðun ráðuneytisstjórans í fjármálaráðuneytinu, þ.e. hann metur það þannig, ég gat ekki ráðið það öðruvísi, af því að ákveðnir hagfræðingar hafa sagt að það sé lítill efnahagslegur ávinningur af álverum. Ég er einfaldlega ekki sammála því og ég get líka dregið fram hagfræðinga máli mínu til stuðnings. Og ég spyr: Hvar er ætlunin að fá öll þau störf sem hljótast af starfsemi álvera? Hvað með alla orkuþekkinguna, mannvitið og mannauðinn sem er okkur svo mikilvægt í dag, varðandi sölu og útflutning á hugviti héðan? Þetta byggist m.a. á orkuþekkingu og orkureynslu. Ég tel því að skoða verði heildarmyndina, ekki taka bara eitt út sem er hentugt. Ég dreg þetta fram af því að ég er dauðhrædd um að áframhaldandi líf þessarar ríkisstjórnar á næstu fjórum árum af því að þau hafa sagt það, Vinstri græn og Samfylking, (Forseti hringir.) að þau ætli að halda áfram þessu starfi og vinna saman, að þau muni þá koma í veg fyrir (Forseti hringir.) áframhaldandi uppbyggingu stóriðju hvort sem það er á Norðurlandi eða Suðurlandi.