136. löggjafarþing — 80. fundur,  12. feb. 2009.

arðsemi álvera.

[10:38]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Ég átta mig ekki alveg á því í hvaða heimi Sjálfstæðisflokkurinn lifir þessa dagana. Það eru um það bil 10 dagar síðan Sjálfstæðisflokkurinn missti völdin í landinu, hafandi stjórnað í næstum 18 ár og viðskilnaðurinn er eins og raun ber vitni. (Gripið fram í: Ætlarðu að svara spurningunni?) Ég mun gera það ef ég fæ frið til þess.

Störf í álverum eru með þeim dýrustu sem finnast þegar er kostnaður á hvert starf er metinn. Hvert starf sem þar verður til kostar einhver hundruð milljóna í fjárfestingum á sama tíma og ný störf í ferðaþjónustu kosta kannski 3–4 milljónir í nýjum fjárfestingum. Álver á Vesturlöndum eru öll að draga saman framleiðslu sína og það er mat margra fræðiaðila að það muni sennilega ekki verða byggð ný álver á Vesturlöndum næstu 10 til 15 árin eins og markaðshorfur og verð og fleiri þættir eru nú að þróast. En ég held að Sjálfstæðisflokkurinn ætti örlítið að reyna að átta sig á því á hvaða tíma við lifum. Valdatími Sjálfstæðisflokksins er liðinn, a.m.k. í bili, (Forseti hringir.) og vonandi verður það um alllangt skeið. Ég held að Sjálfstæðisflokkurinn ætti bara að glíma sem mest við sjálfan sig til að komast yfir þessi tímamót í sögu sinni.