136. löggjafarþing — 80. fundur,  12. feb. 2009.

olíuleit á Skjálfanda.

[10:41]
Horfa

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Grétari Mar Jónssyni fyrir þau hlýju orð sem hann lét falla, fullkomlega óverðskuldað, um mig í gær og satt best að segja verð ég að trúa hæstv. forseta fyrir því þegar mér voru borin þau lá við að ég tárfelldi.

Hins vegar á spurningin sem hv. þingmaður varpar til mín fullan rétt á sér. Þegar hin fyrsta olíunefnd var samþykkt af hinu háa Alþingi, ég held 1987, þá var það m.a. vegna vísbendinga um að á þessum svæðum, á Skjálfanda og reyndar á einum öðrum stað, kynnu að vera merki um gas. Það liggja fyrir gögn, sem eru auðvitað miklu minni en þau sem við höfum í dag um Drekasvæðið, sem benda til þess að gas kunni að vera að finna á þessu svæði.

Á sínum tíma ákvað iðnaðarráðuneytið og ríkisstjórnin að einbeita öllu sínu rannsóknaratgervi og fjármunum til olíurannsókna á Drekasvæðinu, jafnvel þó að á þeim tíma væri ekki til tækni sem gerði kleift að vinna það þar. Ég tel að hjá lítilli þjóð hafi það verið hugvitsamleg og framsýn niðurstaða að fara þessa leið. Það voru mjög sterkar óbeinar vísbendingar á þeim tíma um að þessi efni væri að finna á Drekasvæðinu og ég gæti farið í löngu máli yfir af hverju það er. Það er þess vegna sem menn einbeittu sér að því svæði. Hitt liggur fyrir að það eru vísbendingar sem hægt er að kalla marktækar og gögn sem liggja fyrir um það í fórum stjórnvalda sem benda til hins sem hv. þingmaður segir. Rétt er þá að geta þess líka að á síðasta ári fundust líka ákveðnar vísbendingar um það að djúpt undir Austurlandi væri að finna efni sem jafnan tengjast líka jarðefnum af þessum toga. Það er þess vegna vel hugsanlegt að í framtíðinni eigum við fleiri kosta völ en núna einbeitum við okkur að Drekasvæðinu.