136. löggjafarþing — 80. fundur,  12. feb. 2009.

olíuleit á Skjálfanda.

[10:45]
Horfa

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Herra forseti. Nú er þetta pólitíska ástarskjallbandalag milli mín og Frjálslynda flokksins að komast á það stig að ég veit ekki heldur hvort ég ætti að ganga í Frjálslynda flokkinn eða hv. þingflokksformaður Frjálslyndra að ganga í Samfylkinguna.. Hins vegar er það svo að ég hef fullan hug á því að þær vísbendingar sem þarna eru verði skoðaðar frekar í framtíðinni.

Nú vil ég benda hv. þingmanni á að ég hef nýlega undirritað reglugerð sem á sér stoð í lögum sem voru samþykkt fyrir jólin, um sérstakan rannsóknarsjóð. Þegar fram líða stundir munu fyrirtæki sem fá leyfi til rannsókna á Drekasvæðinu þurfa að greiða töluvert hátt gjald í rannsóknarsjóð á hverju einasta ári. Með þeim hætti erum við að reyna að byggja upp fjármagn til þess bæði að efla menntun í þessari tegund jarðfræði og verkfræði en líka til frekari rannsókna og hugsanlega ef einhvern tíma í lengri framtíð að þingferli okkar beggja sleppir, gætum við jafnvel einbeitt okkur að því að eyða ellinni í það að leita að olíu á Skjálfanda.