136. löggjafarþing — 80. fundur,  12. feb. 2009.

búvörusamningurinn.

[10:46]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Hæstv. forseti. Í kjölfar skipbrots efnahagsstefnu Sjálfstæðisflokksins í haust er ljóst að Íslendingar þurfa enn á ný að treysta á meginstoðir íslensks atvinnulífs, sjávarútveg, ferðaþjónustu, iðnað og landbúnað.

Hæstv. iðnaðarráðherra hefur kynnt til sögunnar metnaðarfullar og vonandi raunhæfar aðgerðir í iðnaði og nýsköpun og fyrrverandi sjávarútvegsráðherra, Einar K. Guðfinnsson, hefur talað fyrir umtalsverðri niðurfellingu á skuldum sjávarútvegs auk þess sem hann fann fyrir algjöra tilviljun 30.000 tonn af þorski milli þilja í sjávarútvegshúsinu á Skúlagötu.

Bændur hafa hins vegar litlar fréttir fengið nema þær helstar að á þeim eru einhliða brotnir samningar með afnámi verðtryggingar í búvörusamningum.

Á nýafstöðnu flokksþingi Framsóknarflokksins samþykktu framsóknarmenn ýmsar aðgerðir til aðstoðar landbúnaði í landinu, þar á meðal að auka heimavinnslu afurða, að tollar á aðföng landbúnaðar verði endurskoðaðar með lækkun framleiðslukostnaðar að markmiði og sett var á stofn nefnd um hvernig hægt væri að auka verðmætasköpun í landbúnaði á næstu 10 árum og samhliða verði Framleiðnisjóður landbúnaðarins efldur.

Öfugt við þær skuldir sjávarútvegsins sem fyrrum sjávarútvegsráðherra vildi fella niður eru skuldir landbúnaðarins að mestu leyti komnar til vegna fjárfestingar í greininni sjálfri. Þar er um að ræða annars vegar erlend lán sem nú er orðið nær ómögulegt að standa undir og verðtryggð innlend lán sem hækka stöðugt. Verðtryggingin fær að halda sér á skuldum bænda en var afnumin einhliða af stórum hluta tekna þeirra.

Því vil ég spyrja hæstv. landbúnaðarráðherra hvort hann hyggist treysta stöðu bænda og draga til baka samningsbrot fyrri ríkisstjórnar á bændum. Hyggst hæstv. ráðherra jafnframt grípa til markvissra aðgerða til hagsbóta fyrir landbúnað í landinu, og þá hvaða aðgerða?