136. löggjafarþing — 80. fundur,  12. feb. 2009.

búvörusamningurinn.

[10:48]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að taka upp málefni landbúnaðarins. Það gleður mig að þau gleymist ekki í þeirri orrahríð sem gengur yfir að ýmsu öðru leyti í efnahagsmálum og öðru.

Ég hef þegar átt fund með forustumönnum Bændasamtakanna og reyndar einnig hitt garðyrkjubændur sem glíma við mikla erfiðleika vegna mikilla hækkana, sérstaklega á raforkuverði, og ég reikna með því að fara með ákveðin atriði tengd stöðu landbúnaðarins inn í ríkisstjórn á föstudag.

Það er alveg ljóst að landbúnaðurinn glímir við mikla erfiðleika og fram undan eru erfiðir hlutir eins og þeir að ráða fram úr áburðarkaupum á vori komanda þar sem því miður stefnir í umtalsverða hækkun, kannski 30% hækkun eða svo, á áburði ofan á þá 50–80% hækkun sem varð á síðasta ári. Þá þarf auðvitað ekki frekari vitna við um það hvílíkt áfall það er fyrir greinina að takast á við þetta. Jafnvel virðisaukaskattsuppgjör núna 1. mars kann að reynast ýmsum bændum býsna erfitt eins og um fjárhaginn er búið.

Það mun því reyna mikið á bæði vilja lánastofnana og fleiri aðila til að reyna að styðja landbúnaðinn í þessum erfiðleikum. Það verður skoðað með svipuðum hætti og var reyndar gert á síðasta ári, þá var tilmælum beint sérstaklega til lánastofnana um að aðstoða bændur í sambandi við áburðarkaup og fleira. En hér kann mjög líklega fleira að þurfa að koma til, t.d. einfaldlega að tryggja fjármögnun á áburðarkaupum í vor, og yfir þá möguleika sem eru stöðunni í þeim efnum verður farið.

Ég mun væntanlega leggja ákveðna hluti til í þessum efnum strax á fundi ríkisstjórnar á föstudag og eiga svo áframhaldandi viðræður við forustumenn bænda um aðstæður í greininni á næstu vikum.