136. löggjafarþing — 80. fundur,  12. feb. 2009.

aðild að ESB.

[10:52]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla að beina fyrirspurn til hæstv. utanríkisráðherra en ætla ekki að blanda mér í pólitískt tilhugalíf hv. þm. Grétars Mars Jónssonar, fyrrverandi varaþingmanns Alþýðuflokksins, og hæstv. ráðherra. Það er þó eitt mál sem ég vildi spyrjast fyrir um sem tengist kannski þessum flokkum. Eins og menn þekkja hefur helsta baráttumál Samfylkingarinnar frá stofnun og fram til þessa verið aðild að Evrópusambandinu. Eins og menn þekkja hefur þetta verið mál sem hún hefur lagt afskaplega mikla áherslu á og það gekk meira að segja svo langt, virðulegi forseti, að formaður Samfylkingarinnar sagði eitthvað í þá veru að ef Sjálfstæðisflokkurinn í síðustu ríkisstjórn mundi ekki sveigja af leið og fara nær Samfylkingunni hvað þá hluti varðaði væri stjórnarsamstarfinu sjálfhætt. Þó svo að formaðurinn hafi nú dregið þau orð eitthvað til baka segir það kannski svolítið um þungann í málinu þegar kemur að Samfylkingunni og Evrópusambandinu.

Það var því athyglisvert þegar hæstv. ráðherra Össur Skarphéðinsson lýsti því yfir í útvarpsviðtali að Samfylkingin hefði náð miklu lengra með þetta mál í samstarfi við Vinstri græna en Sjálfstæðisflokkinn og væri þar ólíku saman að jafna. Nú er ekki hægt að greina af verkefnaskrá ríkisstjórnarinnar að þar hafi menn náð einhverjum árangri til að setja á blað hvað þetta varðaði. Ég held að það væri mjög fróðlegt fyrir þingheim að fá nánari útlistun hæstv. ráðherra á þessu þar sem þetta er ekki skjalfest og fá að vita um ætlanir þessara flokka, sem ætla að starfa saman áfram ef þeir fá umboð til, hvað varðar Evrópumálin og hverjir þessir stóru sigrar Samfylkingarinnar eru í þessu samstarfi á (Gripið fram í.) þeim vettvangi.