136. löggjafarþing — 80. fundur,  12. feb. 2009.

Icesave-deilan.

[10:59]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég beini fyrirspurn til nýs hæstv. fjármálaráðherra, Steingríms J. Sigfússonar, sem ég veit að mun af sama skörungsskap ganga fram í sínu nýja embætti og hann hefur til þessa gert í stjórnarandstöðunni. Eitt af þeim vandamestu verkefnum sem hann hefur fengið á sínar herðar eru Icesave-málin í Bretlandi. Í gær lýsti seðlabankastjóri Englands því yfir með meira afgerandi hætti en áður hversu djúp og erfið þeirra efnahagskreppa verður og í ljósi þess að eignir Landsbankans í Bretlandi eru auðvitað það sem við kunnum að hafa upp á móti 640 milljarða skuldbindingum vildi ég spyrja hæstv. fjármálaráðherra hvort ástæða sé til að hafa áhyggjur af því að rýrari eftirtekja verði af eignunum en við upphaflega gerðum ráð fyrir í ljósi þess að ástandið á Bretlandi virðist erfiðara og meira langvarandi en upphaflega var ráð fyrir gert.

Í öðru lagi, vegna þess að hér var nefndur Baldur Guðlaugsson, þá um forustu fyrir samningaviðræðunum um Icesave, og hvort hæstv. ráðherra telji það koma til álita að leita til færustu sérfræðinga á alþjóðavettvangi í samningaviðræðum af þessu tagi. Jafnvel þótt við eigum góða og gegna embættismenn sem hafa góða reynslu af viðræðum við aðrar þjóðir höfum við auðvitað aldrei samið um jafngríðarlega hagsmuni og hér er um að ræða. Samningar og samningaviðræður eru auðvitað sérstök grein og í henni eru sérfræðingar á alþjóðavettvangi.

Í þriðja lagi, á hverju megum við eiga von í þessum viðræðum á þeim 11 vikum sem fram undan eru? Eru einhver skref í þeim sem hæstv. ráðherra sér fyrir eða fram á?