136. löggjafarþing — 80. fundur,  12. feb. 2009.

viðbótarsamningar við Norður-Atlantshafssamninginn um aðild Albaníu og Króatíu.

197. mál
[11:08]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Árni Þór Sigurðsson) (Vg):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti minni hlutans um tillögu til þingsályktunar um staðfestingu tveggja viðbótarsamninga við Norður-Atlantshafssamninginn um aðild Albaníu og Króatíu. Hæstv. utanríkisráðherra mælti fyrir þessari stjórnartillögu á þriðjudaginn en hún hafði verið lögð fram í byrjun desembermánaðar 2008. Utanríkismálanefnd tók málið til umfjöllunar á fundi sínum í gær og fékk, eins og fram kom í máli hv. þm. Þórunnar Sveinbjarnardóttur, tvo embættismenn úr utanríkisráðuneytinu á sinn fund til að fylgja málinu eftir.

Í minnihlutaáliti því sem ég stend að kemur fram að að loknu kalda stríðinu og hinum miklu sögulegu viðburðum í Evrópu eftir 1989 hafi vaknað vonir um nýtt öryggisumhverfi í álfunni þar sem sameiginlegt öryggiskerfi allrar álfunnar leysti gömlu hernaðarbandalögin, bæði Atlantshafsbandalagið og Varsjárbandalagið, af hólmi. Í stað ógnarjafnvægis og vígbúnaðarkapphlaups yrði leitast við að þróa nýtt öryggiskerfi sem tryggði lýðræði, frið og stöðugleika í álfunni allri. Slíkt öryggiskerfi tæki til fleiri þátta en til stjórnmálaástands og hernaðarlegs styrks og endurspeglaði breytt inntak öryggishugtaksins sem vísar einnig og ekki síður til öryggis og stöðugleika hvað varðar umhverfismál, félagsmál og efnahagsmál.

Minni hlutinn telur að vænlegasta leiðin í öryggismálum Evrópu hefði verið, og sé, sú að efla stofnunina um öryggi og samvinnu í Evrópu (ÖSE) sem sameiginlega friðar- og öryggisgæslustofnun fyrir álfuna alla. Þar geta allar þjóðir setið við sama borð og tekið þátt í að móta nýja stefnu í öryggis- og friðarmálum álfunnar, stefnu sem byggist á nýrri hugsun, alþjóðasamvinnu, afvopnun og viðleitni til friðsamlegra lausna deilumála. Slík samvinna er líklegri til þess að auka frið og stöðugleika í heiminum en útþensla og stækkun hernaðarbandalaga.

Minni hlutinn telur skiljanlegt að þjóðir á Balkanskaga leiti eftir því að tengjast vestrænum bandalögum í ljósi sögunnar og átaka á tíunda áratug síðustu aldar. Að sjálfsögðu ber að virða sjálfsákvörðunarrétt þjóða og lýðræðislegan rétt þeirra til að ákveða hvernig varnar- og öryggismálum þeirra skuli háttað. Minni hlutinn telur þó ekki að stækkun Atlantshafsbandalagsins sé jákvætt skref í öryggismálum Evrópu og að vænlegra sé að gæta friðar, stöðugleika og öryggis í heiminum með því að efla stofnanir eins og ÖSE og með endurskipulögðu öryggisráði Sameinuðu þjóðanna. Með vísan í þessa afstöðu munu þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs sitja hjá við afgreiðslu málsins. Það er sama afstaða og þingmenn VG hafa tekið við sambærileg mál.

Ég vil jafnframt láta þess getið við þessa umræðu að utanríkisráðherra Albaníu er hér staddur í opinberri heimsókn á Íslandi um þessar mundir og mun eiga fund með forseta Alþingis og formanni utanríkismálanefndar síðar í dag þar sem ég mun m.a. gera honum grein fyrir því að málið hafi verið afgreitt af hálfu utanríkismálanefndar Alþingis og verið afgreitt hér á Alþingi, væntanlega í dag, og mun að sjálfsögðu skýra honum frá þeim sjónarmiðum sem ég hef flutt fram í þessari umræðu einnig.