136. löggjafarþing — 80. fundur,  12. feb. 2009.

viðbótarsamningar við Norður-Atlantshafssamninginn um aðild Albaníu og Króatíu.

197. mál
[11:11]
Horfa

Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegi forseti. Ég stend að áliti meiri hluta utanríkismálanefndar og er samþykkur því sem fram kemur í álitinu. Það er niðurstaða mín að rétt sé að styðja stækkun NATO og það að þessar tvær þjóðir gangi í bandalagið. Þó eru uppi í þessu máli eins og flestum öðrum álitaefni sem ástæða er til að fara aðeins yfir og reifa í umræðunni þannig að menn hafi að minnsta kosti heyrt þau sjónarmið.

Það sem ég vildi nefna er í fyrsta lagi stækkunin sjálf. NATO var, eins og hv. þingmenn þekkja, bandalag þjóða sem voru miklu færri en þær 26 sem nú eru í bandalaginu. Það er gagnkvæmt bandalag þannig að kjarninn í því er að árás á eitt ríki bandalagsins jafngildir árás á þau öll þannig að þau ábyrgjast hvert fyrir sig öll hin ríkin þannig að það eru allir fyrir einn og einn fyrir alla. Þess vegna skiptir máli að það sé samhentur hópur þjóða sem stendur að því og virði, eins og fram kemur í nefndarálitinu, grundvallaratriði varðandi öryggi, lýðræðisþróun og stöðugleika. Að öðrum kosti gengur slíkt bandalag ekki upp ef einhver ríkin vinna eftir öðrum sjónarmiðum en almennt eru uppi og sett fram sem krafa fyrir þátttöku í því. Mér finnst skipta mestu máli í þessu núna, með ný ríki, að um sé að ræða sannanlega lýðræðisþróun í þá veru sem við þekkjum hér í Evrópu þannig að ný ríki virði þær leikreglur og þau grundvallarsjónarmið sem eru undirstaða lýðræðisríkis.

Mér finnst þess vegna skipta mestu máli að athuga þá þætti þegar velt er fyrir sér hvort eigi að taka ný ríki inn í bandalagið. Ég sé það á þeim gögnum sem fyrir liggja að þeir sem hafa athugað þessi mál hafa komist að þeirri niðurstöðu að í báðum þessum ríkjum séu þessi skilyrði uppfyllt. Ég hef engan efa um að það sé þá rétt að fallast á að ríkin gangi í bandalagið. Þetta vildi ég undirstrika, virðulegi forseti, en ég vil líka nefna að ég spurðist fyrir um það í meðförum utanríkismálanefndar hvað varðar Króatíu, hvort menn hefðu gengið úr skugga um að upplýst hefðu verið öll þau mál, sem alþjóðasamtök hefðu talið ástæðu til að kalla eftir upplýsingum um, sem tengjast stríðinu í Júgóslavíu á síðasta áratug. Vissulega væri ekki heppilegt að taka inn ríki þar sem væru óupplýst alvarleg mál, jafnvel stríðsglæpir sem átt hefðu sér stað. Þau svör fengust að svo væri að undanskildu einu máli sem væri ekki að öllu leyti upplýst.

Ég held að menn verði að vera alveg vissir um að þeir sem stýra Króatíu leggi sig fram um að upplýsa alla glæpi sem kunna að hafa verið framdir í stríðinu í Júgóslavíu á síðasta áratug.

Í öðru lagi spurðist ég fyrir um stöðu Albaníu. Það er kunnara en (Utanrrh.: Utanríkisráðherra mun …) þörf er á að segja frá að í Albaníu hafa lengi verið uppi hugmyndir um það og pólitískir draumar að búa til stærra ríki en nú er, svokallaða Stór-Albaníu, með sameiningu Albaníu við héruð annars vegar í Júgóslavíu, sem nú er Kosovo, og hins vegar við hérað í Makedóníu. Menn verða að velta því fyrir sér og spyrja hvað kunni að gerast ef þessi áform fá aukinn byr frá því sem nú er, en okkur er sagt að núverandi stjórnvöld Albaníu hafi lagt þessar hugmyndir á hilluna. Þær kunna að koma upp á nýjan leik með nýjum valdhöfum síðar, eftir nokkur ár, eftir lengri eða skemmri tíma. Menn þurfa að velta fyrir sér hvaða áhrif það kunni að hafa á stöðu Albaníu ef slíkt gerist. Ég held að það sé ekki alveg víst að slíkt yrði heillaspor. Svörin sem við fengum í nefndinni voru að engin áform væru uppi um slíkt þannig að það virðist ljóst að þeir sem eru forsvarsmenn málsins telja það ekki æskilega þróun að Albanía stækki. Ég er sammála því en vil samt vekja athygli á málinu vegna þess að ég held að það geti komið upp síðar og menn þurfa að vera viðbúnir því og hafa haft augun á málinu og leysa þá úr því áður en það verður að stóru vandamáli sem kunni að vera bandalaginu erfitt.

Ástæðan fyrir því að ég hef áhyggjur af því er einfaldlega sú að ef Kosovo og Albanía sameinast í eitt ríki óttast ég að settur verði neisti í púðurtunnu. Balkanskaginn hefur löngum verið púðurtunna í Evrópu eins og hv. þingmenn þekkja. Það væri að mínu viti mjög slæm þróun ef slík áform fengju byr undir báða vængi. Ég spurðist fyrir um það hvaða áhrif það hefði á stöðu NATO ef Albanía stækkaði og það var ekki hægt að svara þeirri spurningu. Það liggja ekki fyrir svör um hvaða áhrif það hefði. Getur eitt ríki bandalagsins einfaldlega stækkað, útvíkkað landamæri sín og allt landsvæði hinna nýju landamæra verið innan NATO, þar með talið allar skuldbindingar sem ríkin takast á hendur hvert gagnvart öðru? Mundu skuldbindingarnar ná yfir hið nýja útvíkkaða landsvæði? Það var ekki hægt að svara þeirri spurningu. Ég óskaði eftir því að utanríkisráðuneytið aflaði svara við því og vonandi berast þau svör fljótlega, augljóslega samt ekki í tíma fyrir afgreiðslu þessa máls. Ég held engu að síður að við ættum að kanna það og þegar svörin liggja fyrir skoða þau og ræða málin.

Þetta vildi ég leggja áherslu á, virðulegi forseti, vegna þess að þarna held ég að geti leynst hætta ef illa fer. Auk þess verður krafan um stöðugleika og lýðræðisþróun þá að ná yfir Kosovo. Það verður að segja hverja sögu eins og hún er, þar hefur vantað mjög mikið upp á (Utanrrh.: … stöðugleiki …) að það hafi verið á því landsvæði. Vonandi hefur það breyst til batnaðar að einhverju leyti, að minnsta kosti hvað varðar stöðugleikann. Lýðræðisþróunin held ég að eigi töluvert í land á því landsvæði miðað við þær upplýsingar sem ég hef um stöðu mála þar.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta mál, en ég vildi samt vekja athygli á þessum sjónarmiðum vegna þess að við þurfum að vera meðvituð um þessa stækkun og til hvers hún kunni að leiða. Á sínum tíma þegar fyrsta stækkun NATO var til meðferðar í þinginu greiddi ég atkvæði gegn þeirri stækkun vegna þess að ég óttaðist að hún mundi ekki auka stöðugleikann heldur minnka hann, að Rússa mundu taka stækkunin óstinnt upp, það mundi auka óstöðugleikann. Sem betur fer hef ég ekki reynst sannspár í þeim efnum, það hefur ekki gengið eftir. Þó er ekki alveg víst að svo verði því að Rússar eru kannski fyrst núna að ná einhverjum efnahagslegum og pólitískum styrk og við vitum ekki hvernig þróunin verður á næstu árum með auknu afli þeirra. Ég vænti þess að það haldi sem orðið er hvað varðar NATO, að það standi þá af sér aukinn styrk Rússa.

Það liggja t.d. fyrir óskir frá Georgíumönnum um að verða aðilar að NATO. Menn verða þá að spyrja sig hvar NATO eigi að enda. Hvað á það að teygja sig yfir mörg ríki? Ég hef mikla samúð með stöðu Georgíu í þeim heimshluta sem er kannski varla hægt að segja að sé í Evrópu því að það er dálítið sérstakt ríki og þjóð sem er … (ÁÞS: Hvað þá við Norður-Atlantshaf.) já, alls ekki við Norður-Atlantshaf. Georgía býr við mikla sérstöðu í þessum heimshluta og ég hef nokkra samúð með þeim, en það er dálítið erfitt að heimfæra stöðu ríkisins upp á Norður-Atlantshaf eða Evrópu. Menn hljóta þá að spyrja sig hvar við ætlum að enda í þessu sameiginlega varnarbandalagi. Ef við teygjum okkur yfir í Asíu getum við alveg eins farið yfir til Afríku eða eitthvert annað og það er út af fyrir sig bara mál til að ræða, hvort menn vilja breyta NATO yfir í slíkt bandalag. Mér finnst það út af fyrir sig vera hlutur sem menn geta rætt en menn þurfa þá að minnsta kosti að ræða það.