136. löggjafarþing — 80. fundur,  12. feb. 2009.

viðbótarsamningar við Norður-Atlantshafssamninginn um aðild Albaníu og Króatíu.

197. mál
[11:26]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Ég vil stuttlega koma upp í ræðustól þingsins til að undirstrika það sem kom m.a. fram hjá ræðumönnum okkar strax við fyrri umræðu málsins. Við styðjum þetta mál af heilum hug og má segja að verið sé að undirstrika það góða samstarf sem við sjálfstæðismenn munum og viljum eiga við minnihlutastjórnina í góðum málum. Rétt er það sem hæstv. utanríkisráðherra drap á að mælt var fyrir málinu fyrir tveimur dögum, síðan fór það til hv. utanríkismálanefndar og var afgreitt þaðan skjótt, því málið er gott og brýnt og máli skiptir að við sýnum strax í vilja og verki að við viljum stuðla að því að auka stöðugleika í samvinnu NATO-ríkjanna, stuðla að stöðugleika og friði í álfunni og bjóða ríkin Albaníu og Króatíu velkomin í hóp lýðræðisríkja.

Auðvitað vekur eftirtekt að formaður utanríkismálanefndar, hv. þm. Árni Þór Sigurðsson, skuli ekki hafa treyst sér til að skrifa undir meirihlutaálit utanríkismálanefndar og kannski undirstrikar það hina sérstöku stöðu sem stjórnarsamstarfið er í. En um leið fagna ég því sérstaklega að menn í öðrum flokkum eru staðfastir í að ýta undir mikilvægi NATO og starfsemi NATO á sem breiðustum grunni og ég held að ljóst sé að í gegnum árin hafi NATO svo sannarlega sannað gildi sitt. Menn hafa líka lært af reynslunni, ég skal draga það fram, en um leið áttað sig á því að það sem mestu máli skiptir fyrir öll aðildarríkin, sem munu verða 28 eftir að við og önnur ríki höfum staðfest þennan samning, er stöðugleiki, friður og öryggi í álfunni.

Þetta vildi ég sagt hafa, frú forseti. Það skiptir okkur máli að sýna vilja okkar og samstarf við vinaþjóðir okkar. Það er brýnt og mikilvægt að menn haldi vöku sinni til að við náum að halda viðvarandi friði í álfunni.

Ég vil eins og hæstv. ráðherra þakka hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni fyrir um margt málefnalega ræðu og athyglisverða punkta. Hann koma aðeins inn á málefni Georgíu og það var líka komið inn á þau við fyrri umræðu málsins. Hvar á að draga mörkin? Vissulega er eðlilegt að menn leiti svars við þeirri spurningu en ég held að svarið sé ekki að ríghalda í nafn Norður-Atlantshafsbandalagsins og binda það eingöngu við Atlantshafið. Frumforsendan í þessu öllu er auðvitað sjálfsákvörðunarréttur þjóða og ef NATO-ríkin standa frammi fyrir því að meta þegar þar að kemur hversu mikilvægt er að Georgía fái inngöngu í NATO verður auðvitað farið yfir hvaða þýðingu það hefur fyrir frið á því svæði. Ef Georgía uppfyllir allar þær kröfur sem gerðar eru til aðildarríkjanna, líkt og Albanía og Króatía hafa gert, tel ég fullkomlega eðlilegt að við, löndin sem eigum aðild að NATO, skoðum mjög vel að heimila þeim að verða meðlimir svo lengi sem skilyrðin sem þeim ríkjum sem leita eftir inngöngu um lýðræði og fleira verða uppfyllt.

Ég fagna þessu og segi að við sjálfstæðismenn viljum undirstrika bæði hraða vinnu af okkar hálfu og líka það að við teljum mikilvægt að sýna lipurð og um leið stuðning okkar í verki með því að taka með vinsemd og virðingu á móti Albaníu og Króatíu inn í NATO. Góðum ríkjum sem eru að festa sig í sessi sem lýðræðisríki og hafa, eins og hæstv. utanríkisráðherra kom ágætlega inn á í ræðu sinni, markvisst verið að taka á málum sínum, hvort sem þau snerta stjórnskipunina eða aðra löggjöf sem mun stuðla að auknu lýðræði innan þeirra.