136. löggjafarþing — 80. fundur,  12. feb. 2009.

viðbótarsamningar við Norður-Atlantshafssamninginn um aðild Albaníu og Króatíu.

197. mál
[11:32]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er greinilegt að ég hef snert einhverja viðkvæma strengi, ég ætlaði mér nú ekki að gera það. Ég vildi hins vegar draga fram þá sérstöku aðstæður sem við búum við í stjórnmálum í dag, þ.e. að hér er minnihlutastjórn og hún birtist með þessu móti. En um leið birtist ríkur vilji okkar sjálfstæðismanna til að ljá góðum málum lið. Við undirstrikum það með þessu máli, m.a. af því að við virðum sjálfsákvörðunarrétt þjóða. Við virðum líka meirihlutavilja Alþingis og það er sjálfsagt og eðlilegt að undirstrika það, og eins og með réttu var gripið fram í þá óska ég líka eftir því að vinstri grænir virði meirihlutavilja Alþingis, m.a. í hvalamálinu, ef við getum tekið þá umræðu síðar.

Mér finnst það leiðinlegt og miður ef ég hef vakið upp einhvern titring í hjarta og brjósti hv. þingmanns, ég ætlaði mér ekki að gera það. Það er lýðum ljóst að vinstri grænir eru og hafa alltaf verið á móti NATO. Þeir vilja fara aðrar leiðir. Það er engin nýlunda. En það er engu að síður kómískt og sérstakt að fyrsta mál sem utanríkismálanefnd afgreiðir undir forustu hv. þingmanns skuli vera með þessum hætti. En við sjálfstæðismenn styðjum þetta mál.