136. löggjafarþing — 80. fundur,  12. feb. 2009.

viðbótarsamningar við Norður-Atlantshafssamninginn um aðild Albaníu og Króatíu.

197. mál
[11:39]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Nú erum við komin í athyglisverða söguskýringu. Minn góði vinur og hæstv. utanríkisráðherra, Össur Skarphéðinsson, hefur sagt margt rétt hér og ég er ánægð með að við erum samherjar í því máli sem hér er til umræðu, þ.e. að Albanía og Króatía verði meðlimir í NATO.

Þegar kemur að stjórnskipuninni sjálfri þá er það rétt að samkomulag varð um eitt atriði í síðustu vinnu stjórnarskrárnefndar. Það var um það hvernig breyta ætti stjórnarskránni. Við skulum ekki draga dul á að samkomulag varð um það atriði. Lagt var fram frumvarp fyrir þingið og hvað gerðist? Þingið afgreiddi ekki málið. Frumvarpið var komið til þingsins en þingið afgreiddi ekki málið. Við skulum hafa það á hreinu að enginn einn flokkur kom í veg fyrir það. Það var einfaldlega þannig að frumvarp var lagt fram og þingið afgreiddi ekki málið.

Önnur atriði, t.d. varðandi fullveldið, þjóðaratkvæðagreiðslur og önnur þau atriði sem við, stjórnmálamenn í hinum ýmsu flokkum, viljum ræða. Það er sjálfsagt að fara mjög djúpt í þá umræðu og við eigum að gera það. Við eigum að fara í grundvallarumræðu, djúpa umræðu, um það hvernig við viljum sjá stjórnarskrána okkar breytast. Hvernig hún eigi að svara kalli tímans en standa áfram vörð um þau grundvallargildi sem íslenskt samfélag hefur staðið vörð um á undanförnum árum. Ég held að við séum öll sammála um þetta.

Ekki má fara af stað í einhverja flausturslega herferð til þess að breyta stjórnarskránni. Við eigum að hugsa þetta lengra og víðara en það hvort hér sé minnihlutastjórn eða meirihlutastjórn, hvort Sjálfstæðisflokkurinn sé í stjórnarandstöðu eða ekki. Þetta mál er miklu stærra en svo að við hugsum um það hvernig mál skipast hér á þingi, (Forseti hringir.) hvernig við breytum stjórnarskránni. Ég bið menn að hugsa þetta stærra og víðar en svo að fara í pólitíska leiki hér.