136. löggjafarþing — 80. fundur,  12. feb. 2009.

viðbótarsamningar við Norður-Atlantshafssamninginn um aðild Albaníu og Króatíu.

197. mál
[11:46]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Þetta hefur verið mjög athyglisverð umræða en ég hef þó hugsað mér að beina athyglinni aðeins til baka, að því umræðuefni sem við ræðum núna sem er síðari umræða um staðfestingu tveggja viðbótarsamninga við Norður-Atlantshafssamninginn, um aðild Albaníu og Króatíu.

Ásamt hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur stend ég að meirihlutaáliti utanríkismálanefndar og eins og komið hefur fram í umræðunni höfum við lagt okkur fram um að greiða sem mest fyrir þessu ágæta máli og koma því hratt og örugglega í gegnum utanríkismálanefnd. Nærvera utanríkisráðherra Albaníu fyrr í dag í þinghúsinu sýnir að þessi ríki leggja afar mikið kapp á að komast sem fullgildir meðlimir inn í Atlantshafsbandalagið og mér er það mikil ánægja sem þingmanns á hinu háa Alþingi að geta lagt þessum þjóðum lið. Þessi stækkun er fyrirhuguð og hefur verið lengi til umfjöllunar sem og aðrar mögulegar væntanlegar stækkanir sem líka hafa verið ræddar hér, t.d. Georgíu og einnig er Úkraína í biðröðinni eins og allir vita.

Sú áhersla sem þessi ríki leggja á umsókn um aðild að Atlantshafsbandalaginu sýnir þær væntingar sem þjóðirnar bera til aðildar að bandalaginu, væntingar sem fyrst og síðast snúast um lýðræði, stöðugleika og frelsi til framtíðar fyrir þeirra fólk. Mér finnst mjög skiljanlegt að leiðtogar þjóða hafi slíkar væntingar fyrir sitt fólk og vil þannig, eins og áður hefur komið fram, greiða fyrir því í alla staði.

Hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson spurði hvar NATO ætti að enda og það er mjög góð spurning hjá þingmanninum. Í mínum huga snýst þetta ekki eingöngu um landamæri, þó að heitið Norður-Atlantshafsbandalagið takmarki það vissulega landfræðilega ef menn horfa aðeins á nafnið. Í mínum huga snýst þetta fyrst og síðast um að þegar ríki sem sækjast eftir aðild og uppfylla þau ströngu skilyrði sem bandalagið setur þá keppast þær þjóðir við að uppfylla skilyrðin og verða betri. Þetta snýst um þá hvatningu sem bandalagið setur umsóknarlöndum við lýðræðisuppbyggingu og hvað varðar efnahagslífið og pólitíkina sem ég held að verði alltaf til bóta.

Aðeins vegna þeirrar umræðu sem farið hefur fram um minnihlutaálit formanns utanríkismálanefndar. Hann segir að það sé lýðræðislegt að virða rétt meiri hlutans og þess vegna hafi hann ekki gert ágreining við meiri hluta nefndarinnar og skilað minnihlutaáliti sínu. Ég tek eftir því að í lok álitsins reifar hann að minni hlutinn telji að stækkun Atlantshafsbandalagsins sé ekki mjög jákvæð og stuðli ekki endilega að friði í Evrópu. Hann telur vænlegra að gæta friðar með stofnunum eins og ÖSE og Sameinuðu þjóðunum. Þetta álit kemur svo sem ekki á óvart úr þessari átt en mig langar bara til að koma þeirri afstöðu minni á framfæri að mér finnst annað ekki þurfa að útiloka hitt. Við eigum að sjálfsögðu að beita okkur í þeim stofnunum sem hann nefnir og starfa þar eins og við höfum gert en annað þarf ekki að útiloka hitt.

Svo vekur það nokkra undrun en það er gott að það komi fram hér og nú þegar svo skammt er til kosninga, að Vinstri grænir í ríkisstjórn setja sig ekki upp á móti stækkun Atlantshafsbandalagsins heldur sitja hjá en Atlantshafsbandalagið hefur verið einn helsti óvinur þeirra og forvera þeirra í gegnum tíðina. Það er gaman að sjá að þeir munu í ríkisstjórn og utan stjórnar, ef maður skilur þetta rétt, virða rétt meiri hlutans og þar sem þeir hafa þó tilhneigingu í ýmsum málum til að vera fulltrúar minnihlutaskoðana þá geri ég ráð fyrir því að hvort sem þeir eru í ríkisstjórn eða ekki muni þeir virða rétt meiri hlutans í stað þess að beita sér fyrir minnihlutaskoðunum sínum í stefnumálum sem þeir trúa á. Það er því ágætt fyrir kjósendur Vinstri grænna að vita þetta núna fyrir kosningar og gott fyrir þjóðina að vita að svona fer kannski um sannfæringu þeirra í ýmsum málum.

En, virðulegi forseti, þetta er gott mál og ég er ánægð með að okkur hafi tekist að afgreiða það á svo skömmum tíma vegna þess að það skiptir þessar þjóðir máli að aðildarferlið verði ekki tafið og það verði ekki gert af okkar völdum.