136. löggjafarþing — 80. fundur,  12. feb. 2009.

tekjustofnar sveitarfélaga og gatnagerðargjald.

185. mál
[11:55]
Horfa

Sturla Böðvarsson (S):

Hæstv. forseti. Ég er einn þeirra nefndarmanna sem skrifa undir nefndarálit vegna þessa frumvarps og er samþykkur þeim breytingum sem hér er verið að fjalla um og skýrt kemur fram í nefndarálitinu út á hvað þær ganga.

Ég vil af þessu tilefni minna á að þetta frumvarp er hluti af þeim aðgerðum sem fyrrverandi ríkisstjórn stóð fyrir að yrðu lögfestar til þess að koma til móts við heimilin í landinu og þá fasteignaeigendur sem um er að tefla. Það er algerlega nauðsynlegt að skapa þau skilyrði sem breytingarnar fela í sér til að auðvelda sveitarfélögunum að koma til móts við þá sem ekki geta staðið í skilum með gjöld af eignum sínum.

Hins vegar kom fram í nefndinni að ef til vill væri og ég tel að í rauninni sé mjög mikilvægt og nauðsynlegt að efna til heildarendurskoðunar um þessa gjaldtöku, fasteignagjöldin almennt. Fasteignagjöldin eru ekki bara fasteignaskatturinn heldur lóðaleiga og sorphreinsunargjald og fleira en um þessi gjöld gilda mismunandi reglur þegar kemur að lögveðsheimildum.

Til að lengja ekki þessa umræðu vil ég hvetja til þess að horft verði til endurskoðunar hvað þessa löggjöf varðar og vísa þá til yfirlýsingar sem Samband íslenskra sveitarfélaga og ríkisstjórnin undirrituðu 10. október sl. þar sem fjallað var um samstarf vegna stöðu efnahagsmálanna, samstarf milli ríkisins og milli sveitarfélaganna. Ég tel mjög mikilvægt að litið verði rækilega yfir alla löggjöf sem varðar tekjur sveitarfélaganna og þjónustu þeirra og sem varðar einstaklinga og félög sem eiga fasteignir, í þeim tilgangi að auðvelda sveitarfélögunum að rífa sig upp úr þeim erfiðleikum sem fylgja hruni bankakerfisins og varða atvinnulífið í landinu. Það kemur síðast en ekki síst niður á sveitarfélögunum þegar gjaldendur geta ekki staðið í skilum. Það er því af mörgu að taka en þetta frumvarp er mikilvægur þáttur í því að koma til móts við það ástand sem er.