136. löggjafarþing — 80. fundur,  12. feb. 2009.

tímabundnar ráðstafanir í þágu einstaklinga.

128. mál
[12:28]
Horfa

Flm. (Kristinn H. Gunnarsson) (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst hvað varðar gjaldþrotaskiptalögin. Lagt er til í frumvarpinu að nýtt lagaákvæði komi til sem geri það ókleift að taka bú lántaka til gjaldþrotaskipta ef ógjaldfærni hans eins og það heitir á lagamáli, þ.e. hann getur ekki lengur staðið undir skuldbindingum sínum, verður vegna þessara sérstöku aðstæðna á fjármálamarkaði. Það þarf því að vera rakið til þess.

Þær aðstæður hafa auðvitað leitt fram annars vegar töluverða verðbólgu, skyndilega verðbólgu, og hins vegar atvinnuleysi. Það sem getur snert einstaklinginn er að tekjur hans hafa minnkað og skuldir hans hafa vaxið töluvert mikið á skömmum tíma umfram það sem laun hafa breyst. Ef þessar aðstæður leiða til þess að hann hefur ekki lengur tök á að borga skuldir sem hann hafði tök á fyrir gjaldþrot bankanna á þetta ákvæði við.

Hins vegar vek ég athygli á því að það á ekki við ef menn voru búnir að steypa sér í vandræði fyrir gjaldþrot bankanna. Þá mundi þetta ákvæði 4. gr. frumvarpsins ekki eiga við. Því miður held að býsna margir hafi verið búnir að skuldsetja sig mikið og kannski umfram það sem þeir gátu borið til lengri tíma áður en það kom til sem gerðist í október.

Varðandi biðreikninginn mundi hann fara eftir almennum ákvæðum skuldabréfsins um vexti og dagsetningar á afborgunum eða slíkt. En greiðslurnar færðust bara aftur fyrir upphaflega lánstímann og lánstíminn lengdist um jafnlangan tíma og frestunin nær. (Forseti hringir.)