136. löggjafarþing — 80. fundur,  12. feb. 2009.

tímabundnar ráðstafanir í þágu einstaklinga.

128. mál
[12:31]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Síðan bankarnir hrundu í haust hafa á Alþingi verið rædd mörg frumvörp til þess að milda greiðslubyrði almennings af skuldum sínum og til þess að milda áfallið sem sérstaklega þeir sem missa vinnuna verða fyrir, verða atvinnulausir. Þar bregðast að sjálfsögðu allar forsendur fyrir lántökunni.

Hér ræðum við enn eitt frumvarpið í þessa veru. Ég held að það sé mjög gott, frú forseti, að fá sem flestar hugmyndir inn til þess að átta sig á því hvað hægt er að gera þannig að fjölskyldum sé bjargað.

Ég hef alltaf sagt að það sé mjög mikilvægt að beygja fólk en brjóta það ekki þannig að menn borgi eins og hægt er en ekki umfram getu. Mér sýnist að þetta frumvarp gangi út á að gera það. Ég á reyndar eftir að bera það saman við það frumvarp sem við ræddum í fyrradag um gjaldþrotaskipti eða frestun á gjaldþrotaskiptum og mildari aðgerðir þar. En hér virðist vera gert ráð fyrir því að segja íslenskum lánastofnunum að haga starfsemi sinni í samræmi við hreina og klára skynsemi.

Ég geri ráð fyrir því að flestar lánastofnanir keyri ekki að óþörfu af hörku í einstaklinga, hvorki fyrir né eftir kreppu, vegna þess að það tapa allir á því þegar menn eru neyddir til sölu, neyddir til að flytja úr íbúðinni o.s.frv. Þeir sem þekkja til slíkrar nauðungarsölu vita að mjög margt fer úrskeiðis í eigninni þegar hún fer á nauðungarsölu og eigandinn á hana allt í einu ekki lengur. Ég ætla ekki að nefna það hvað viðhaldi eigna hrakar mikið í slíkri stöðu sem varir oft í eitt eða tvö ár. Þá er eignin oftast minna virði en áður.

Ég held nú að flestar lánastofnanir sem hafa til þess heimildir vinni þannig að þær reyni að lágmarka tjónið og reyni að láta fólk borga eins og hægt er, lengja í lánum og lengja í fresti o.s.frv. og lána til viðbótar, að það sé gert miklu víðar en mönnum er kunnugt um.

Það sem er kannski verra eru lánastofnanir eins og Íbúðalánasjóður sem vinnur samkvæmt mjög stífum reglum og verður að fara út í óskynsamlegar aðgerðir. Mér sýnist að þetta frumvarp sem við ræðum hér taki einmitt á þeim vanda þar sem eru óþarflega vélrænar aðferðir við uppgjör sem skaða í rauninni alla og kannski lánastofnunina sjálfa sérstaklega. Ég reikna því með því að einkabankarnir hafi haft miklu frjálsari hendur við að lengja í og semja við fólk og reyna að fá það til að borga þó að greiðslur dreifist á lengri tíma.

Það sem þyrfti alveg sérstaklega að undirstrika í þessu sambandi er að ráðgjöfin sé efld, þ.e. að skuldir séu kortlagðar. Ég hef kynnst því að fólk gefst upp. Það opnar ekki gluggaumslögin, þessi grænu. Þau hrúgast upp og fólk lokar á veruleikann og fer í algera afneitun. Afleiðingin er yfirleitt sú að menn mikla svo óskaplega fyrir sér vandann að hann verður óleysanlegur.

Ég hef líka kynnst því að þegar maður fer í gegnum slíkt og kortleggur skuldirnar eru þær oft miklu auðveldari og oft bara hlægilega auðveldar viðfangs miðað við það sem menn höfðu reiknað með. Ég mundi því vilja að sú nefnd sem skoðar þetta frumvarp ásamt mörgum öðrum skoði sérstaklega að fara út í kortlagningu skulda hjá einstaklingum. Ég veit að það er mjög dýr aðgerð og Ráðgjafarstofa heimilanna þyrfti kannski sérstaka fjárveitingu til þess. En kortlagning skuldanna er oft og tíðum lykillinn að því að leysa vandann. Þá þarf jafnvel ekki að fara út í svona aðgerðir sem við tölum um þegar búið er að kortleggja vandann og menn átta sig á því hvernig þeir geta staðið að málum.

Það er gömul lenska á Íslandi að líta á lán sem lán, þ.e. hamingju. Þannig var það einu sinni þegar verðbólgan át upp lánin og það var eiginlega heppni og hamingja að fá lán. Nú eru gjörbreyttir tímar með verðtryggðum lánum og markaðsvöxtum. Það sem þarf kannski að fara að kenna er að lán er í rauninni ólán. Menn ráðstafa tekjum framtíðarinnar með hverri einustu lántöku. Hvort sem menn kaupa bíl, hús, innbú, flatskjá eða hvað það nú er á raðgreiðslum ráðstafa þeir tekjum framtíðarinnar. Þeir gera það ekki oft. Þeir gera það ekki nema einu sinni og þeir þurfa líka að lifa í framtíðinni. Það er eitthvað sem þyrfti að koma inn hjá þjóðinni fyrr en seinna, að menn geti ekki lifað um efni fram, menn geti ekki ráðstafað tekjum sínum oftar en einu sinni til neyslu og til framfærslu. Það gæti verið hluti af þessu verkefni, að breyta hugsun manna og afstöðu þeirra til lána.

Mér finnst þetta frumvarp vera gott innlegg í þá umræðu sem á sér stað um hvernig við förum að því að leysa vandamál margra einstaklinga. Ég vil nefna það í þessu sambandi að fjölmiðlar hafa gert mjög mikið úr vandanum. Mér finnst þeir hafi gert of mikið úr vandanum. Þeir sjá alltaf hálftóma flösku en ekki hálffulla. Til dæmis var gerð könnun um daginn frá ASÍ, mjög merk könnun, sem sagði að 14% Íslendinga hefðu lækkað í tekjum og þar á meðal hv. þingmenn. Svo hefðu 7% misst vinnu eða minnkað vinnuhlutfall, misst yfirvinnu eða eitthvað slíkt. Þetta þýðir 21% og var gert mikið úr þessu með réttu því að þeir sem lenda í þessu eru illa settir. En það eru 79% nærri 80% sem ekki höfðu lækkað í tekjum eða misst vinnuna.

Ef maður lítur þannig á það má segja að rjóminn af íslenskum heimilum, þessi tæp 80%, höfðu ekki orðið fyrir áfalli af þessum sökum. Að sjálfsögðu mæta menn verðbólgunni eða öðru slíku sem skerðir tekjurnar og ráðstöfunartekjurnar. En það er miklu minni vandi en sá sem menn verða að glíma við þegar þeir missa vinnuna eða hluta af henni. Ég held því að vandinn sé dálítið mikið ýktur því miður og kannski brýtur það fólk meira niður en ástæða er til. Ég held að menn þurfi aðeins að fara að líta á jákvæðu punktana líka.

Það kom líka könnun frá SA einhvern tímann í haust um að 30% fyrirtækja í landinu væru illa sett eða mjög illa sett fjárhagslega. En hvað segir það okkur? 70% af fyrirtækjum eru þá ekki illa sett. Ef maður lítur þannig á það, frá hinni hliðinni, er staðan kannski ekki alveg svona slæm en ég veit að hún hefur versnað síðan. En menn þurfa nú líka að líta á það sem er jákvætt í dæminu þannig að þeir fyllist ekki eintómu vonleysi. Það er alls ekkert vonleysi til staðar og ég held að til einhverra ára, sérstaklega ef vel tekst til á stjórnarheimilinu að semja um þessar gífurlegu greiðslukröfur vegna skuldar sem gerðar eru á okkur að ósekju, sé vandinn bara tímabundinn, kannski til tveggja, þriggja ára. En þetta frumvarp er einmitt mjög gott innlegg í lausn á þeim vanda.