136. löggjafarþing — 80. fundur,  12. feb. 2009.

fjármálafyrirtæki.

90. mál
[13:38]
Horfa

Flm. (Jón Bjarnason) (Vg):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161 frá 20. desember 2002, sem ég flyt ásamt fimm hv. þingmönnum Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, Ögmundi Jónassyni, Birni Vali Gíslasyni, Guðmundi Magnússyni, Kolbrúnu Halldórsdóttur og Atla Gíslasyni.

Frumvarpið var flutt á síðasta löggjafarþingi en fékk ekki afgreiðslu þá og var því lagt fram aftur í haust. Efni þess lýtur fyrst og fremst að stöðu sparisjóðanna í landinu, breyting á ákvæðum um fjármálafyrirtæki sem snúa að sparisjóðunum.

Ég renni fyrst yfir þær greinar sem eru aðalefni frumvarpsins. 1. grein hljóðar svo:

„Við 1. mgr. 12. gr. laganna bætist nýr málsliður er orðast svo: Heitið „sparisjóður“ er þó óheimilt að nota með öðrum orðum eða skammstöfunum í firmaheiti.“

Þarna kristallast einmitt meginmarkmið þessa máls, þ.e. að þeir sparisjóðir sem starfa samkvæmt hugsjónum og gildum sparisjóðanna fái einir að kalla sig sparisjóði. Önnur fjármálafyrirtæki, þó svo að þau hafi einhvern tíma haft sparisjóðsheitið í nafni sínu en hafa breyst í hlutafélagsbanka eða annað form og vikið þar með frá þeim hugsjónagrunni sem sparisjóðirnir byggja á fá ekki að kalla sig sparisjóði heldur kalli þau sig banka. Því er lagt til að við 12. gr. bætist, eins og ég rakti áðan, herra forseti, að heitið „sparisjóður“ er óheimilt að nota með öðrum orðum eða skammstöfun í firmaheiti, það skal fá að standa sjálfstætt.

2. gr. þess frumvarps sem ég flyt er breyting við 4. mgr. 73. gr. laganna sem lýtur að því að heimilt hefur verið verið breyta sparisjóði í hlutafélag eins og sú málsgrein hljóðar nú í lögunum, með leyfi forseta:

„Sparisjóði, sem breytt er í hlutafélag samkvæmt ákvæðum þessarar greinar, er auk orðsins „sparisjóður“ skylt að hafa orðið hlutafélag í heiti sínu eða skammstöfunina hf.“

Við flutningsmenn þessa frumvarps leggjum til að þessi málsgrein hljóði svo:

„Sparisjóði, sem breytt er í hlutafélag samkvæmt ákvæðum þessarar greinar, er óheimilt að nota orðið „sparisjóður“ í heiti sínu.“

Það þýðir, eins og liggur í orðanna hljóðan, að þeir sparisjóðir sem hafa breytt sér í hlutafélög eða breytt um form, vikið frá hugsjónum sparisjóðanna í annað form fyrir peningastofnun sína, fjármálastofnun, skipti þá eðli málsins samkvæmt um nafn. (KÓ: Er þetta forgangsmál ríkisstjórnarinnar?) Þetta mál er hér á dagskrá og gæti verið forgangsmál, ekki síst í sambandi við siðvæðingu fjármálakerfisins. Hins vegar held ég að hv. þm. Kjartan Ólafsson sé jafnvel bara hlynntur því að fjármálakerfið verði siðvætt, herra forseti.

Auk þess leggjum við til í 3. gr. frumvarpsins að felldur verði brott 22. tölul. 1. mgr. 110. gr. laganna. Það hljóðar upp á það að sparisjóðir sem hafa breytt sér í hlutafélög fái ekki heldur að bera orðið og hugtakið „sparisjóður“ í nafni sínu heldur velji þeir sér annað nafn sem lýtur að því rekstrarformi og því eignarformi sem þeim hefur verið breytt í.

Frumvarpinu fylgir svo greinargerð, herra forseti, og ég geri örstutta grein fyrir þessu henni:

Í frumvarpi þessu er lagt til að starfsemi þeirra sparisjóða sem áfram vilja bera nafn sparisjóða verði færð aftur til upphaflegs markmiðs við stofnun þeirra. Markmiðið var að stofnfjárhafar hefðu hvorki fjárhagslegan né persónulegan ávinning af stofnun sjóðanna heldur væri stuðningur þeirra persónulegur og endurspeglast það markmið í ábyrgð þeirra á skuldbindingum sjóðanna sem takmarkast við stofnfjárhlut. Enn fremur er lagt til að heitið sparisjóður verði lögverndað, þ.e. að einungis verði heimilt að nota heitið sparisjóður ef um raunverulegan sparisjóð er að ræða en ekki ef sparisjóðnum er breytt í hlutafélag eða hann rekinn sem fjármálastofnun eða banki. Hugtakið sparisjóður er órjúfanlega tengt starfsgrunni og hugsjónum sem réðu við stofnun þeirra. Það er því verið að beita blekkingum ef fjármálastofnun er leyft að bera heitið sparisjóður í nafni sínu þótt hún hafi horfið frá flestum grunnþáttum sem samfélagið leggur í hugtakið sparisjóður. Samkvæmt frumvarpinu verður því óheimilt að nota það með öðrum orðum eða skammstöfunum í firmaheiti fjármálastofnunar.

Eins og áður sagði var frumvarpið áður flutt á síðasta löggjafarþingi og er endurflutt nú óbreytt. Vert er að huga að því í því ástandi sem nú ríkir í íslenskum fjármálaheimi að staðbundnir sparisjóðir sem leggja kapp á að þjónusta einstaklinga og fyrirtæki í heimasveit sinni telja sig enn geta veitt þá þjónustu við þær aðstæður sem nú eru meðan óvíst er um stærri, hlutafjárvædda sparisjóði sem tóku þátt í kapphlaupi og útrás bankanna.

Sparisjóðir eru að grunni til félagslegar stofnanir og meginhluti eiginfjár þeirra er í sjálfseign en í reynd í eigu almennings þess nærsamfélags sem viðkomandi sparisjóður þjónar. Sparisjóðirnir voru stofnaðir á grunni hugsjóna félagshyggju og samvinnu til að byggja upp atvinnu- og menningarlíf á heimasvæði sínu. Litið var á stofnfjárhafa sem ábyrgðarmenn og markmiðið var ekki að hámarka arðgreiðslur heldur þjóna samfélaginu. Hlutverk sparisjóða er að veita almenna fjármálaþjónustu á grundvelli hugsjóna um eflingu og uppbyggingu atvinnulífs og menningarstarfs á heimasvæðum. Á þessum grunni hafa sparisjóðirnir gegnt lykilhlutverki í fjármálaþjónustu við einstaklinga og minni fyrirtæki, einkum á landsbyggðinni. Stofnfjárhafar sem lögum samkvæmt þurfa að standa að hverjum sparisjóði eru engan veginn eigendur sjóðanna heldur trúnaðarmenn samfélagsins á starfssvæði sjóðanna. Hlutverk stofnfjárhafanna er því að tryggja að sjóðurinn starfi á þessum hugsjónagrunni en ekki að hámarka eigin persónulegar arðgreiðslur. Í framantöldu felst ímynd og gildi heitisins „sparisjóður“. Hins vegar ber hlutafélagsbanki engar slíkar samfélagsskyldur heldur er meginmarkmið hans að hámarka ábata og arð eigenda hlutafjárins. Á því er grundvallarmunur.

Hér er ekki endilega verið að kasta rýrð á hlutafélagsbankana sem slíka. Þeir starfa á sínum forsendum og gera það fyrir opnum tjöldum. Sömuleiðis eiga sparisjóðirnir að fá vernd til þess að starfa á sínum forsendum án þess að þeir séu yfirteknir eða beittir bolabrögðum til þess að breyta og komast yfir eigur þeirra og breyta þannig formi þeirra.

Það er alveg rétt að allmiklar breytingar hafa orðið á rekstri sparisjóða hérlendis en aðdragandi þeirra hefur birst að undanförnu í fréttum um viðskipti með stofnbréf og sameiningu eða yfirtöku ákveðinna sjóða. Í rauninni má segja að á undanförnum árum hafi átt sér stað býsna hljóð einkavæðing á eigum sparisjóðanna. Hafa þeir átt í vök að verjast gegn aðilum sem reynt hafa — og tekist það í mörgum tilfellum — að brjótast inn í þá, komast yfir eigið fé þeirra og viðskiptavild, yfirtaka þá og leggja þar með hald á eigur samfélagsins. Bæði löggjafinn og eftirlitsstofnanir virðast meðvitað eða ómeðvitað hafa brugðist þeim skyldum sínum að standa vörð um hugsjónir sparisjóðanna og hagsmuni almennings og einstakra samfélaga sem hlut eiga að máli. Sú spurning hlýtur að verða áleitin hverjum þeim sem virðir hugsjónir sparisjóðanna eða ber rétt samfélagsins fyrir brjósti hvernig það mætti gerast á sínum tíma þegar hlutur almennings í SPRON hafði lækkað hlutfallslega á örfáum árum úr tæpum 90% í 15%, sem var hér nokkru fyrir hrunið þegar var verið að ræða um sölu á SPRON til Kaupþings á sínum tíma. Þeir sem sóst hafa hvað harðast eftir því að komast yfir samfélagseigur sparisjóðanna eða að breyta þeim í hlutafélag ættu að hugleiða hvaða lagalegan eða a.m.k. siðferðislegan rétt þeir hafi til að einkavæða samfélagsstofnanir eins og sparisjóðirnir eru og komast yfir samfélagslegar eigur þeirra. Þegar sparisjóði er breytt í hlutafélag er hann ekki lengur sparisjóður heldur einkavæddur banki á markaði.

Sem betur fer eru enn til sparisjóðir sem reknir eru á grundvelli þeirrar hugsunar sem lagt var upp með við stofnun þeirra og einbeita sér að því að þjóna fólki í sínu heimahéraði. Hafa þessir sjóðir hvorki tekið þátt í útrás bankanna sem hefur nú knésett hvern af öðrum né heldur í hlutabréfabraski og erlendri fjármögnun. Mikilvægt er því að slá skjaldborg um þessa sparisjóði og þá grundvallarhugsun sem býr að baki starfsemi þeirra.

Frumvarp þetta er fyrsta skrefið í þá átt en þó verður einnig að tryggja sparisjóðunum rekstrargrundvöll og starfsskilyrði með því að binda í lög að viðskipti með stofnfjárbréf verði ekki leyfð á yfirverði sem og að setja ákvæði sem tryggja að hluti stjórnarmanna sé ávallt frá almenningi og heimasamfélagi sparisjóðsins og styrkja með því yfirtökuvarnir. Þá þarf með samkeppnislögum að vera hægt að heimila nauðsynlegt samstarf milli sparisjóðanna þannig að hagsmunir hinna minni sjóða og hæfilegt sjálfstæði þeirra sé tryggt. Hinn félagslegi grunnur sparisjóðanna verður að vera tryggður við núverandi áform um endurskipulagningu fjármálakerfisins. En við þá endurskipulagningu gegna sparisjóðirnir lykilhlutverki enda starf þeirra alfarið á hinum forna félagslega grunni sem byggt var á við stofnun þeirra.

Segja má að með setningu laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, átti að treysta yfirtökuvarnir sparisjóðanna m.a. með því að kveða á um það við hvaða aðstæður sparisjóðsstjórn skuli heimilt framsal á virkum eignarhlut, að tengdir stofnfjáreigendur geti ekki farið með yfir 5% heildaratkvæðamagns í sparisjóði og að sparisjóður verði að breyta rekstrarformi sínu í hlutafélag áður en til samruna við aðrar tegundir fjármálafyrirtækja kemur. Það markmið laganna að treysta yfirtökuvarnir sjóðanna virðist ekki hafa náðst. Fjölmargir sparisjóðir hafa verið hlutafélagavæddir undanfarið þótt enn séu til örfáir sparisjóðir sem eru reknir á grundvelli þeirrar hugsjónar sem lagt var upp með við stofnun þeirra. Sem dæmi má nefna Sparisjóð Hólmavíkur, Sparisjóð Suður-Þingeyinga, Svalbarðseyrar, Þórshafnar og Bolungarvíkur, þegar þetta er skrifað.

Hlutafjárvæðingin hófst með breytingu á SPRON í hlutafélag og allmargir sparisjóðir hafa á undangengnum árum — og reyndar á vafasömum viðskiptum með stofnfé sitt — sameinast í tvær eða fleiri einingar. Má þar nefna Byr, sem hefur nú hlutafjárvæðst og einnig hafa aðrir sparisjóðir sóst eftir því.

Þó að nú hafi komið stopp í þetta ferli í tengslum við bankahrunið er engu að síður ljóst að ýmsir sjóðir voru komnir á ferð með að undirbúa þetta og búnir að breyta umgjörð sinni til að undirbúa sig undir hlutafélagavæðingu. Hér er ekki, eins og ég segi, verið að gagnrýna það ef sparisjóðir ákveða á lögformlegan hátt að gera það og það er gert með lögum og án þess að gengið sé á rétt almennings sem á þarna þó mestra hagsmuna að gæta. En þegar viðkomandi hefur breytt sér í hlutafélagsbanka er eðlilegt að hann skipti um nafn og heiti ekki lengur hinu félagslega nafni „sparisjóður“. Það er það sem er fyrst og fremst verið að leggja áherslu á hér. Við leggjum áherslu á að sparisjóðirnir eigi áfram að gegna lykilhlutverki í fjármálaþjónustu hér á landi og því er einmitt svo mikilvægt að standa vörð um gildi þeirra og starfsgrundvöll. Því er að okkar mati sem stöndum að þessu frumvarpi nauðsynlegt að leggja þetta frumvarp fram.

Í athugasemdum við einstakar greinar hef ég rakið hér og legg áherslu á að heitið sparisjóður verði lögverndað, þ.e. að óheimilt verði að nota það með öðrum orðum eða skammstöfunum í firmaheiti. Hugtakið „sparisjóður“ er órjúfanlega bundið við þær hugsjónir og starfsgrundvöll sem réðu við stofnun þeirra. Þessi breyting tengist því að með frumvarpinu er lagt til að ekki verði lengur hægt að breyta sparisjóði í hlutafélag og halda sparisjóðsheitinu heldur verði að nefna hann „banka“ eða „fjármálastofnun“ í samræmi við þá breytingu sem gerð hefur verið á sjóðnum. Ef sparisjóði er breytt í hlutafélag er hann ekki lengur sparisjóður heldur er hann einkavæddur banki á markaði enda byggist starfsemi hlutafélaga og banka á allt öðrum sjónarmiðum en sparisjóður. Þannig verði t.d. ekki lengur unnt að nota heitið „sparisjóðabanki“ eða „sparisjóður hf.“ í heiti sparisjóðanna.

Það má svo sem fara ýmsum orðum um það sem gerst hefur á fjármálamarkaðnum á síðustu mánuðum þar sem hlutafélagabankarnir hafa hrunið. Ástæðan er sú að græðgin náði þar tökum. Því miður er staðreynd að sama græðgin var líka að læsa sig inn í ýmsa sparisjóði landsins og þeir ríða ekki feitum hesti frá þeim gjörningi við þær aðstæður sem núna eru uppi. Eftir standa samt sparisjóðirnir í miklum vanda sem lentu í þessu sama ferli, í þessu sama braski og hlutafélagabankarnir sem nú eru komnir í hendur ríkisins og hafa gefist upp.

Enn eru samt til sparisjóðir, eins og ég rakti hér áðan, sem starfa samkvæmt hugsjónagrunni sparisjóðanna og standa enn. Við endurskipulagningu á fjármálakerfi landsins á stöðu sparisjóðanna í landinu tel ég mjög mikilvægt að við gefum sparisjóðunum einnig rými í þeirri endurskipulagningu, sparisjóðum sem byggja á þessari hugsjón, félagshyggju og samvinnu, sem sparisjóðirnir voru byggðir á, á nánum tengslum og þjónustu við sitt nærumhverfi. En þá verða þeir líka að fá að njóta þess að fá að heita sparisjóðir og að aðrir gangi ekki inn á það heiti.

Herra forseti. Þetta ætti svo sem að vera mjög ljóst hvað hér er um að tefla. Það hefur komið fram bæði á Alþingi í svari við fyrirspurn sem ég lagði fram fyrir nokkru síðan um stöðu sparisjóðanna núna. Ég fékk skriflegt svar við þeirri fyrirspurn á þskj. 505 þar sem kemur fram að starfshópar eru að störfum núna, ekki aðeins til að sjá hvernig koma megi til móts við þá sparisjóði sem núna eru komnir í mikil vandræði heldur líka hvernig standa megi vörð um þá hagsmuni sem þar eru í húfi. Með neyðarlögunum frá því í haust var samþykkt að ríkissjóður gæti komið með allt að 20%, að mig minnir, inn í eigið fé sparisjóðanna og átt þannig hlutdeild í þeim. Einnig hefur í þessum viðræðum verið kannað með hvaða hætti sparisjóðirnir gætu átt með sér innra samstarf og rýmkað þannig á þeim samkeppnislögum sem gilda um þá. Þeir gætu þannig stutt hverjir aðra og átt samstarf en jafnframt starfað sem sjálfstæðar einingar vítt og breitt um landið eins og þeir hafa margir hverjir gert.

Ég vil þess vegna að þetta frumvarp fari inn í þá umræðu og endurskoðun sem verið er að gera á stöðu og hlut sparisjóðanna og ítreka þá afstöðu að það var ekki síst hugsjónagrunnurinn undan hlutafélagabönkunum sem brast, græðgin tók yfir. Sparisjóðirnir sem fengu að sleppa og sluppu við þessa græðgisvæðingu sem varð, héldu sig fast við sína félagshyggju, héldu sig fast við að meginmarkmiðið var ekki að skaffa arð til eigenda stofnbréfanna heldur að standa sterkan vörð um sjóð sinn og þjónustu við nærumhverfið. Það er þessi hugsjón sem við þurfum aftur að hefja til vegs á öllum sviðum, ekki síst innan fjármálageirans og fjármálaþjónustunnar og í uppbyggingu fjármálaþjónustu við landsmenn á næstu mánuðum og missirum. Sparisjóðirnir og hugsjónir þeirra gegna þar lykilhlutverki og við þurfum ekki aðeins að vernda þá heldur líka að styrkja þá til að hlutur þeirra geti orðið sem mestur í þeirri endurreisn sem við stöndum frammi fyrir á fjármálakerfi landsmanna. Látum þá sparisjóði sem eru raunverulega sparisjóðir fá að heita sparisjóðir en aðrir geta heitið eitthvað annað.