136. löggjafarþing — 80. fundur,  12. feb. 2009.

fjármálafyrirtæki.

90. mál
[14:02]
Horfa

Flm. (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég hélt að hv. þm. Kjartan Ólafsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, væri að koma upp til að biðjast afsökunar á stefnu Sjálfstæðisflokksins varðandi einkavæðingu bankanna og bankamál í landinu. Ég hefði frekar viljað heyra hv. þingmann koma hér og lýsa því yfir að því miður hefði einkavæðing bankanna, Búnaðarbankans og Landsbankans, á sínum tíma mistekist hrapallega en hún var gerð einmitt í ríkisstjórnartíð Sjálfstæðisflokksins. Svo kveinkar hv. þingmaður sér yfir því þegar ég tala um að innleiða þurfi aukna siðvæðingu í fjármálakerfið. Mér finnst þetta vera býsna bratt af þingmanni Sjálfstæðisflokksins sem ætti frekar að koma hér og taka undir með mér, því að ég veit að hv. þm. Kjartan Ólafsson er maður sem, og þess vegna er líka ekkert langt á milli okkar, styður samvinnuhugsjónina. (Gripið fram í: Og ágætur maður.) (Gripið fram í: Hann er velkominn.) Já, framsóknarmenn styðja hann líka en samt einkavæddu þeir bankana. Þannig er það.

Það er alveg hárrétt að þetta mál er ekki á lista yfir forgangsmál ríkisstjórnarinnar. Þetta er ekki ríkisstjórnarmál, þetta er frumvarp sem við þingmenn Vinstri grænna flytjum og var lagt fram hér snemma í haust og er ekkert óeðlilegt við það þótt það fái framgang, enda held ég að allt sem lýtur að siðvæðingu í fjármálakerfinu eigi að vera af hinu góða. Er hv. þm. Kjartan Ólafsson eitthvað á móti sparisjóðunum? Ég átti ekki von á því að hv. þm. Kjartan Ólafsson væri á móti sparisjóðum. Ég get fullvissað þingheim um að við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði stöndum með sparisjóðunum og stöðu þeirra og hugsjónum og þess vegna er þetta mál flutt.