136. löggjafarþing — 80. fundur,  12. feb. 2009.

fjármálafyrirtæki.

90. mál
[14:04]
Horfa

Kjartan Ólafsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Þetta var sérkennilegt svar við andsvari, ég get nú ekki annað sagt. Að sjálfsögðu er ég hlynntur öllu sem heitir siðvæðing og að frumkvæði forsætisnefndar er að störfum rannsóknarnefnd sem er m.a. að skoða siðferðisþátt þess bankahruns sem við höfum orðið vitni að. Ég get því tekið undir það með hv. þingmanni. Að ég sé á móti sparisjóðunum er náttúrlega alveg út í hött, enda nefndi ég það ekkert í fyrra andsvari mínu.

Ég var fyrst og fremst að benda á það og spyrja hv. þingmann hvort það væri aðalatriði máls, hvað sparisjóðirnir heita og með hvaða hætti nöfn þeirra eru í prókúru þeirra, með kennitölum og í auglýsingum o.s.frv. Það er allt annað en einkavæðing og hvort maður er með eða á móti sparisjóðum. Það er tvennt ólíkt.

Þess vegna spyr ég hv. þingmann: Er það virkilega svo að það hafi verið ástæðan fyrir því að svo illa fór fyrir einkabönkunum að það stóð ekki í auglýsingum ehf. eða eitthvað slíkt? Var það nafnið sem skipti máli? Hvernig í ósköpunum getur þingmaðurinn leitt að því líkur að það breyti einhverju hvort í heiti sparisjóðs standi ehf. eða ekki?

Og ég spyr enn og aftur: Er þetta eitt af þeim mikilvægu málum sem núverandi ríkisstjórn þarf og verður að koma í gegn þannig að bankakerfið rísi aftur og heimilin og fyrirtækin komist á hina beinu braut sem við öll óskum og viljum og verðum að vinna að?