136. löggjafarþing — 80. fundur,  12. feb. 2009.

fjármálafyrirtæki.

90. mál
[14:07]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Í fylgiskjali I með frumvarpi hv. þingmanns sem hann las líka upp úr stendur eftirfarandi, með leyfi herra forseta:

„Að hirða eigur samfélagsins. Á síðustu missirum hafa sparisjóðirnir átt í vök að verjast gegn aðilum sem reyna að brjótast inn í þá og komast yfir eigið fé þeirra og viðskiptavild, yfirtaka þá og leggja þar með hald á eigur samfélagsins. Sú spurning hlýtur að verða áleitin hverjum þeim sem virðir hugsjónir sparisjóðanna eða ber rétt samfélagsins fyrir brjósti, hvernig það megi gerast að almenningshluti eins og í Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis (SPRON) hafi lækkað hlutfallslega á örfáum árum úr tæpum 90% í 15% án þess að neinn hafi þar haldið vörnum fyrir. Horfi ég m.a. til Fjármálaeftirlitsins í þeim efnum.“

Ég vildi nú skora á hv. þingmann að beina fyrirspurn til Fjármálaeftirlitsins, lyfta símanum og spyrja hvernig þetta megi vera (Gripið fram í: Ætlarðu að … einkavæðingunni?) vegna þess að í lögum um hlutafjárvæðingu sparisjóða — sem ég greiddi reyndar atkvæði gegn en mig minnir að hv. þingmaður hafi greitt atkvæði með, ég man það ekki — (Gripið fram í.) þar segir að virt endurskoðunarskrifstofa skuli meta eignir sparisjóðsins og hve stór hluti af þeim sjóði, almenningshlutanum, sem myndast er af eignunum. Það sem hv. þingmaður er hér með að segja er að þarna hafi einhver brotið lög, þ.e. að endurskoðunarskrifstofan sem mat þetta hafi verið að brjóta lög, eða þá að hv. þingmaður skilur ekki um hvað er að ræða og ég skal útskýra það á eftir.