136. löggjafarþing — 80. fundur,  12. feb. 2009.

fjármálafyrirtæki.

90. mál
[14:11]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég spurði hv. þingmann að því hvort hann ætlaði ekki að hafa samband við Fjármálaeftirlitið og benti honum á það, því að hann segir hérna:

„… gegn aðilum sem reyna að brjótast inn í þá og komast yfir eigið fé þeirra og viðskiptavild, …“

Þetta er innbrot og mér finnst að hv. þingmaður eigi að kæra þetta hikstalaust. (Gripið fram í: Fyrir Sjálfstæðisflokknum?) Nei, nei, fyrir dómstólum. (Gripið fram í.)

Ég skal upplýsa hvað gerðist að mínu mati, ég þekki það reyndar ekki nákvæmlega. Þessi sjóður var metinn á einhverja 6 milljarða þegar ég vildi selja SPRON á sínum tíma. (Gripið fram í: Hver átti hann?) Það átti að breyta því í sjóð sem hefði núna getað gusað út sæmilegu … (Gripið fram í: Það var lítið eftir …)

Herra forseti. Gæti ég fengið frið til þess að tala fyrir gasprandi þingmönnum?

(Forseti (KHG): Forseti vill beina því til þingmanna að gefa ræðumanni hljóð.)

Það sem menn gerðu var að menn stórjuku stofnfé. Menn gáfu út milljarða á milljarða ofan, þannig að þessir 6 milljarðar sem voru 90% áður af eigin fé … (Gripið fram í.) Herra forseti. Ég kemst bara ekki að. Ég hlýt að fá lengri tíma, er það ekki, af því að hv. þingmaður tekur hluta af tíma mínum?

(Forseti (KHG): Forseti áréttar tilmæli sín.)

Menn juku stofnféð, væntanlega um allt að því 100 milljarða, og þá minnkaði hluturinn. En menn lögðu fram ábyrgðir eða peninga og þeir hafa sumir hverjir tapað þeim og ég held að þeir aðilar hafi ekkert voðalega gaman af að heyra í hv. þingmanni þegar hann talar hérna, því að þeir hafa tapað umtalsverðu á því að leggja fram þessa peninga og gera þennan sjóð svona lítinn. (Gripið fram í.)