136. löggjafarþing — 80. fundur,  12. feb. 2009.

fjármálafyrirtæki.

90. mál
[14:29]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Þetta var kannski ekki alveg andsvar en ég get svarað ýmsu af því sem hv. þingmaður nefndi. T.d. veittu stóru bankarnir óhemjufé til alls konar menningar- og líknarmála. Nú er þar skarð fyrir skildi og menn verða illilega varir við að þessa peninga vantar og íþróttafélög og margir aðrir þurfa að grípa til harðra sparnaðarráðstafana, þannig að útrásin var ekki alfarið vond. Það sem ég held að hafi gerst, þegar þetta er greint, er að menn fóru út úr því kerfi að sinna sparifjáreigendum, sem Kaupþing gerði í upphafi, og yfir í það að sinna lántakendum, stórlántakendum en ekki smálántakendum. Þeir höfðu engan áhuga á því. Það var meinið í kerfinu.

En varðandi það að sparisjóðir eigi að sinna heiðardal sínum og nærumhverfi, þá gerði SPRON það lengi vel og lánaði til íbúðakaupa í Reykjavík. Svo færði hann út kvíarnar vegna þess að krafa almennings er að fá þjónustu og geta keypt hlutabréf í London og New York á sama stað og hann leggur inn peningana sína þannig að sparisjóðirnir neyddust vegna krafna markaðarins og viðskiptavina sinna til að veita sífellt aukna þjónustu í gjaldeyriskaupum og fleiru og færðust því út fyrir sveitarfélagið. Enda má segja að allur heimurinn sé nú orðinn eitt svæði og menn hættir að hugsa í smástöðum, eins og kannski var fyrir 50 eða 100 árum.