136. löggjafarþing — 80. fundur,  12. feb. 2009.

fjármálafyrirtæki.

90. mál
[14:31]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Herra forseti. Þessar umræður um málefni sparisjóða og fjármálafyrirtækja almennt hafa farið nokkuð víða og ýmislegt komið fram sem ástæða er til að fjalla nánar um. Hins vegar tel ég rétt að minna á við upphaf ræðu minnar að frumvarp það sem hv. þm. Jón Bjarnason leggur hér fram snýst ekki um að vernda sparisjóðina, standa vörð um sparisjóðina, standa vörð um hugsjónir sparisjóðanna. Það snýst bara um einkarétt á því að nota orðið „sparisjóður“ í nafni bankans. Allar hinar hástemmdu lýsingar á hugsjónagrundvelli sparisjóðanna eru því dálítið út úr kú, ef ég má taka þannig til orða þegar við ræðum þetta þingmál

Hv. þm. Jón Bjarnason nefndi réttilega í ræðu sinni að það væru að störfum hópar sem hefðu það hlutverk að fjalla um ýmsa þætti fjármálalöggjafarinnar með tilliti til sparisjóðanna. Þetta er rétt og raunar er það þannig að við hér á þingi höfum lengi beðið eftir því að fá niðurstöður úr þessari vinnu en auðvitað hafa ýmsar ástæður orðið til þess að á því hafa orðið tafir. Nú er staðan frekar sú að ástæða er til þess að fara út í heildarendurskoðun laga um fjármálafyrirtæki frekar en að taka sparisjóðina eina út úr. Eins og við þekkjum hlýtur það að vera liður í enduruppbyggingarstarfi okkar eftir bankakreppuna að endurskoða löggjöf um fjármálafyrirtæki út frá ýmsum forsendum til þess að reyna að fyrirbyggja að svona atburðir gerist aftur.

Við þurfum auðvitað að fara yfir það hvað fór úrskeiðis, við þurfum að fá greiningu á því. Við þurfum að meta hvaða lagabætur eru nauðsynlegar til þess að bæta stöðuna. Ég tel raunar að inni í því hljóti að vera athugun á stöðu sparisjóðanna en ég tel hins vegar að í því sambandi verði að lagfæra lagareglur um sparisjóðina með þeim hætti að þeim verði auðveldað að laga sig að breyttu viðskiptaumhverfi. Ég held að ekki sé rétt sú stefna sem mér heyrist hv. þm. Jón Bjarnason tala hér fyrir að frysta eigi sparisjóðina í einhverju gömlu umhverfi. Ég held að lagareglur sem snúa að sparisjóðunum verði að vera þannig úr garði gerðar að þær passi inn í það fjármálaumhverfi sem almennt ríkir. Ég held að þó að það sé gaman að ákveðinni fortíðarrómantík eins og birtist í ræðu hv. þm. Jóns Bjarnasonar sé hún ekki til þess fallin að stuðla að því að sparisjóðirnir geti til framtíðar starfað sem öflugar fjármálastofnanir og þjónað sínu hlutverki.

Ég held að rétt sé að hafa í huga að áður en fjármálakreppan brast á var það vitað mál að mjög margir sparisjóðir vítt og breitt um landið áttu í verulegum erfiðleikum. Viðfangsefnið sem þá blasti við var raunverulega það að gera þeim auðveldara að sameinast, gera þeim auðveldara að bregðast við breyttum aðstæðum miklu frekar en að frysta þá með lögum í einhverju gömlu horfi. Þetta er staðreynd og það liggur fyrir í gögnum m.a. frá Fjármálaeftirlitinu sem hafa verið kynnt í viðskiptanefnd að staða mjög margra, ekki allra, en mjög margra sparisjóða vítt og breitt um landið var orðin afar bágborin áður en bankahrunið brast á og það verður að hafa í huga þegar við ræðum þessi mál.

Eins og ég segi tel ég að það sé aðalatriðið í þessu máli að við gætum þess að sparisjóðirnir hafi möguleika á því að starfa í því viðskiptaumhverfi sem ríkir í dag, ég held að það sé nauðsynlegt. Ef sparisjóðirnir eru frystir í gamla fyrirkomulaginu held ég að hætta sé á að þeir visni einfaldlega og deyi. Ég ber mikla umhyggju fyrir sparisjóðunum, ólíkt því sem hv. Jón Bjarnason hélt hér fram um mig og flokksmenn mína, að við værum á móti sparisjóðum. Ég hafna því algjörlega og frábið mér slíkar einkunnargjafir af hálfu annarra hv. þingmanna.

Ég legg áherslu á að sparisjóðirnir eru mikilvægir, sparisjóðirnir gegna mikilvægu hlutverki. Ég held að sparisjóðirnir hafi mikilvægt hlutverk til þess að tryggja fjölbreytni og samkeppni á fjármálamarkaði okkar. Ég held að sparisjóðirnir hafi mikilvægu hlutverki að gegna við enduruppbyggingu fjármálakerfisins og þar held ég að við hv. þm. Jón Bjarnason séum sammála. En ég held að það gerist ekki með því að ætla að hefta þá of mikið eða að láta þá standa í stað. Ég held að lagaumhverfið verði að vera sveigjanlegt þannig að þeir hafi möguleika á því að breyta sér og sameinast ef það er skynsamlegt út frá öllum forsendum. Ég held að það eigi að vera útgangspunktur okkar í þessu sambandi. Ég vil bara ítreka það sem ég sagði að ég tel að það sé mjög mikilvægt að sparisjóðirnir verði áfram virkir þátttakendur í fjármálamarkaðnum hérna vegna þess að þeir hafa ekki lent, alla vega ekki enn sem komið er, í sams konar hruni og stóru viðskiptabankarnir þrír. Ég tel að það sé mikilvægt að þeir verði til staðar og gegni áfram hlutverki í fjármálakerfinu.

Ég held að frumvarpið sjálft eins og það liggur hér fyrir gefi ekki tilefni til mikillar umræðu. Það eru að því er virðist fyrst og fremst tilfinningaleg sjónarmið sem búa að baki því hjá hv. þm. Jóni Bjarnasyni að vilja að heitið „sparisjóður“ verði bara bundið við þær fjármálastofnanir sem eru reknar í sparisjóðaforminu. Ég held að fyrir því séu kannski engin sérstök praktísk rök. Það er alveg klárt miðað við núgildandi lög að ef sparisjóði er breytt í hlutafélag verður það að koma fram í nafni hans að hann sé hlutafélag þannig að ekki sé á neinn hátt verið að blekkja viðskiptavini eða neytendur. Ég tel að það sé alveg næg trygging fyrir því að menn ruglist ekki á hefðbundnum sparisjóði og hlutafélagasparisjóði eins og það er nefnt í dag. Í raun og veru finnst mér frumvarpið sem slíkt fyrst og fremst ákveðinn orðhengilsháttur, þar er verið að hengja sig í heitið án þess að með nokkrum hætti sé verið að fjalla um innihaldið. Ég sé ekki að fjármálastofnanir sem eiga rætur sínar í sparisjóði megi ekki nota það heiti í nafni sínu. Ég nefni t.d. Sparisjóðabankann sem hefur verið nátengdur sparisjóðunum, hann er hlutafélag og ég sé ekki neitt því til fyrirstöðu að hann heiti því nafni áfram. Mér finnst það vera orðhengilsháttur að hengja sig á þetta.

Ég skil hins vegar alveg hvað hv. þm. Jón Bjarnason er að fara. Auðvitað er hann að nota þetta tækifæri til að vekja athygli á þeim sjónarmiðum um sparisjóðina sem hann hefur lengi haldið á lofti og eru í sjálfu sér alveg virðingarverð sjónarmið. Þau eiga rétt á sér í umræðunni þó að ég sé ekki sammála þeim. Hann hefur lengi talið að öll viðleitni til þess að breyta lögum um sparisjóði og aðgerðir sem farið hafa fram á grundvelli þeirra laga hafi verið til mikillar óþurftar, það er hans skoðun. En ég tel engu að síður að það sé mikilvægt að halda því til haga að sparisjóðir, eins og önnur fjármálafyrirtæki og önnur fyrirtækjaform, þurfa auðvitað að hafa svigrúm til þess að starfa, breyta sér, taka breytingum eftir því sem aðstæður í umhverfinu krefjast. Ég held að það sé ekki til bóta í þessu máli frekar en öðrum að horfa einvörðungu til baka heldur tel ég að menn eigi að horfa á þá stöðu sem við erum í í dag og hvernig við viljum að þróunin verði, horfa fram á við en ekki til baka.