136. löggjafarþing — 80. fundur,  12. feb. 2009.

fjármálafyrirtæki.

90. mál
[15:02]
Horfa

Valgerður Sverrisdóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla aðeins að rifja það upp í lokin: Er það ekki rétt munað hjá mér að stjórnmálahreyfingin Vinstri hreyfingin – grænt framboð sé í raun á móti hlutafélagaforminu í heild sinni? Mig minnir að það sé þannig og það er þá bara afstaða út af fyrir sig.

Hv. þingmaður talar mikið um græðgisvæðingu, og hægt er að taka undir það að hún hefur svo sannarlega verið við lýði hér. Ég hef líka heyrt hann segja að með hinni nýju ríkisstjórn sé nýfrjálshyggjan hrakin út úr Stjórnarráðinu, og það er gott og vel. En mig langar að spyrja hann, og bið hann þá að svara mér í lokasvari sínu, hvernig hann telji að þetta verði gert. Við erum væntanlega áfram á Evrópska efnahagssvæðinu þar sem lögin sem við setjum á hv. Alþingi og varða fjármálamarkaðinn eru í raun evrópsk. Hvernig ætlar hann að koma í veg fyrir að þessi markaðsvæðing haldi áfram á fjármálamarkaði á Íslandi?