136. löggjafarþing — 80. fundur,  12. feb. 2009.

fjármálafyrirtæki.

90. mál
[15:04]
Horfa

Flm. (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég tek undir áhyggjur hv. þm. Valgerðar Sverrisdóttur um það hvernig hægt sé að stöðva taumlausa markaðshyggju í fjármálageiranum eins og fengið hefur að viðgangast undanfarin ár. Ég trúi því ekki fyrr en ég tek á því að einhverjar ESB-reglur krefjist þess að hér skuli vera frjálst markaðskerfi á öllum hlutum eins og í bönkunum, að óhjákvæmilegt hafi verið að fylgja því vegna þess að við vorum farnir að uppfylla alla ESB-skilmála. Ég hef enga trú á því.

Þó að ég sé enginn aðdáandi ESB og telji að við eigum ekkert erindi þar inn, ekki neitt, þá trúi ég því ekki fyrr en ég tek á því að einhverjar ESB-reglur banni það að við fáum að halda þessa sparisjóði. (Gripið fram í.) Ég trúi því ekki og þess vegna held ég að við getum staðið vörð um sparisjóðina okkar, leyft þeim að vera sparisjóðir sem hafa reksturinn á þann veg. Aðrir bankar sem vilja ekki vera sparisjóðir heita þá bankar og reka sig á þeim grunni en auðvitað þarf enn þá sterkari lög líka um það en verið hefur.

Ég legg áherslu á það í lokin að nú er brýnt að endurvekja og rækta heiðarleika, félagshyggju, samhjálp, ábyrgð, samfélagslega ábyrgð og ekki síst í fjármálaheiminum, játast undir það að hryllileg mistök hafa orðið á undanförnum árum í einkavæðingu og sölu bankanna og síðan því sem fram kom. Ég held að endurvakning á hugsjónum sparisjóðanna eigi brýnt erindi til okkar í dag.