136. löggjafarþing — 80. fundur,  12. feb. 2009.

efnahagsmál.

[15:16]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég fagna því að fá hér tækifæri til að gera Alþingi grein fyrir stöðu efnahagsmála og þeim verkefnum sem ríkisstjórnin hefur unnið að þá fáu daga sem hún hefur haft til þess að láta verkin tala.

Viðfangsefnið er geysilega umfangsmikið. Niðursveiflan virðist því miður ætla að verða enn meiri en áætlanir gerðu ráð fyrir. Samdráttur í þjóðarframleiðslu verður meiri en spáð var og atvinnuleysi eykst því miður enn hraðar en spár höfðu gert ráð fyrir.

Ábyrgð okkar allra sem erum í ríkisstjórn og sitjum á Alþingi er mikil og við verðum að bregðast hratt við. Það er líka hlutverk okkar stjórnmálamanna að tala kjarkinn í þjóðina, bæði í fjölskyldurnar í landinu og ekki síður þá sem geta byggt upp atvinnulífið með okkur. Við megum ekki falla í þá gryfju stjórnmálanna að draga upp dekkri mynd en tilefni er til, ala á upplausn, sundurlyndi og ótta eins og borið hefur á síðustu daga, ekki síst hér á Alþingi.

Á tímum sem þessum eigum við ekki að nota dýrmætan tíma þingsins í karp, hártogun og útúrsnúninga. Almenningur vill ekki slíkt karp og veit að það skilar sér ekki í bættum hag. Viðfangsefnin og úrlausnarefnin þola enga bið. Heimilin og fyrirtækin geta einfaldlega ekki beðið í skugga pólitísks karps. Þau krefjast úrbóta og lausna.

Því miður einkenndi ákvarðanafælni efnahags- og fjármálaráðherra ríkisfjármálin og þvældist fyrir endurreisn bankakerfisins. Hræðsla manna kom í veg fyrir endurskipulagningu Seðlabankans og hefur tafið sameiningu við erlenda lánardrottna. Það er deginum ljósara að ekki var hægt að una við frekari tafir á þessum þáttum sem skipta sköpum varðandi það hvort við náum þeim árangri sem að er stefnt.

Samkvæmt áætlun stjórnvalda og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins þarf að taka til hendinni á mörgum vígstöðvum á fyrstu mánuðum áætlunarinnar og hraða vinnu sem því miður hefur gengið allt of hægt allt of lengi, svo hægt að ef ekki hefði nú verið gripið í taumana hefði illa getað farið. Stjórnvöld og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn settu sér metnaðarfull markmið. Þeim markmiðum var ekki fylgt af nægilegum krafti vegna of mikils seinagangs og ákvarðanafælni sem einkenndu störf þeirra sem báru ábyrgðina á málinu í síðustu ríkisstjórn. Þetta er staðan sem blasir við nýrri ríkisstjórn á hennar fyrstu dögum.

Ríkisstjórnin hafði skuldbundið sig til að birta fyrir áramót drög að áætlun um ríkisfjármál til millilangs tíma, þ.e. áætlun um hvernig hún ætlar að taka á miklum fjárlagahalla og síhækkandi skuldabyrði ríkissjóðs á næstu árum. Sú vinna fyrrverandi ríkisstjórnar var því miður skammt á veg komin og þetta er ekki síst alvarlegt þar sem slík áætlun sem unnin væri af raunsæi og festu gæti flýtt verulega til lækkunar vaxta Seðlabankans og þar með létt verulega undir með fyrirtækjum, heimilum og fjölskyldum þessa lands en við höfum þegar hraðað þessari vinnu.

Endurreisn bankakerfisins hafði einnig tafist fram úr hófi í höndum síðustu ríkisstjórnar. Endurfjármögnun bankanna átti að vera lokið í síðar í þessum mánuði. Nú er hins vegar ljóst að það gæti tafist fram í apríl sem er afar slæmt. Sterkt og endurfjármagnað bankakerfi er þó forsenda hagvaxtar.

Verið er að endurskipuleggja bankakerfið og mun það gefa nýjum og starfandi fyrirtækjum tækifæri til þess að vaxa og dafna. Það mun mynda kjölfestu fyrir atvinnu og þar með fjárhagslegt umhverfi heimilanna.

Ljóst er að ein af forsendum þess að markvisst verði unnið að vaxtalækkun í tengslum við efnahagsáætlun stjórnvalda og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins er að festa komist á stjórn Seðlabanka Íslands og að yfirstjórnendur bankans leggi stjórnvöldum lið við endurreisn fjármálakerfisins. Hið sama á við um gerð tímasettrar áætlunar um rýmkun gjaldeyrishafta. Það er löngu hætt að snúast um einstakar persónur, hafi það einhvern tímann gert það. Þetta snýst um að menn spili saman og leggi sitt af mörkum. Það virðist vefjast fyrir sumum og ég nefni þar engin nöfn. Trúnaður á milli stjórnvalda og Seðlabankans er lykilatriði við stjórn efnahagsmála hér á landi sem annars staðar. Það traust og sá trúnaður hefur ekki ríkt í mjög langan tíma.

Ljóst er að mörgu hefur verið ábótavant á sviði efnahags- og fjármála á þeim dýrmæta tíma sem nú er liðinn frá því að fjármálakerfið hrundi hér á landi í haust. Ljóst er að fyrri ríkisstjórn beitti sér ekki af nauðsynlegu afli í samningum við erlenda lánardrottna eins og um lánakjör vegna Icesave-skuldbindinga né í viðræðum við Norðurlöndin, Pólland og Rússland um lánveitingar til okkar. Þessir aðilar hafa hreinlega beðið eftir viðræðum um þeirra aðkomu og furða sig á því að ekki skuli hafa verið rætt við þá um langa hríð en þau mál hafa fyrst og fremst verið á forræði fjármálaráðherra. Þessi mál verða nú tekin föstum tökum á vettvangi nýrrar ríkisstjórnar en miklir hagsmunir eru þar í húfi.

Ný ríkisstjórn hefur einsett sér að auka mjög upplýsingaflæði til almennings enda eru það sjálfsögð vinnubrögð í opnu og upplýstu nútímasamfélagi. Þeir sem við vinnum fyrir eiga fullan rétt á því að vita hvað við erum að gera og hvert við stefnum. Þess mun sjá stað með reglulegum upplýsingafundum um stöðu mála og verkefni ríkisstjórnarinnar. Almenningur krefst gagnsæis og slík vinnubrögð skila að mínu mati miklum árangri til lengri tíma litið. Við höfum þegar átt mjög góða fundi með aðilum vinnumarkaðarins og fulltrúum lífeyrissjóðanna. Þessir aðilar munu leika lykilhlutverk í því endurreisnarstarfi sem fram undan er og því er afar mikilvægt að stjórnvöld hafi reglulegt samráð við þessa aðila.

Ný ríkisstjórn hefur látið hendur standa fram úr ermum og komið mörgum mikilvægum verkefnum fram í samræmi við verkáætlun sína. Ég nefni hér frumvarp um greiðsluaðlögun og nýtingu séreignarsparnaðar. Ég nefni fulla endurgreiðslu á virðisaukaskatti vegna vinnu manna á byggingarstað við viðhaldsverkefni og eflingu á útlánagetu Byggðastofnunar. Úrræði vegna gengistryggðra lána koma fram á næstu dögum.

Hið sama má segja um frestun nauðungaruppboða vegna íbúðarhúsnæðis í allt að sex mánuði á meðan reynt verður að tryggja búsetuöryggi til frambúðar. Gjaldþrotalögum verður breytt með þeim hætti að staða skuldara verður bætt. Öll þessi mál eru að komast til framkvæmda og í búning til þess að leggja hér fram á Alþingi þannig að þau geti sem allra fyrst nýst fólkinu í landinu.

Hæstv. forseti. Ný ríkisstjórn vinnur nú að fullum krafti samkvæmt samkomulagi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar hafa rætt ítarlega við fulltrúa sjóðsins frá stjórnarskiptum um mikilvægi efnahagsáætlunarinnar og mikilvægi þess að hafa hér hraðar hendur til að efla atvinnulífið á nýjan leik og standa vörð um hag heimilanna.

Í þessari viku voru samþykkt og kynntar aðgerðir í peningamálum. Stefna samræmingarnefndar um bankamál sem starfar á grundvelli efnahagsáætlunar var samþykkt. Einnig var samþykkt að stofna eignaumsýslufélag og verið er að skoða skipun erlends sérfræðings sem fara á í viðræður við skilanefndir og lánardrottna gömlu bankanna. Í því liggja umtalsverðir hagsmunir fyrir skattborgara og ríkissjóð. Við þetta starf njótum við ráðgjafar Mats Josefssons sem er einn fremsti sérfræðingur heims á þessu sviði. Hann hefur nú verið kynntur fyrir þjóðinni og hafði tækifæri til að greina frá verkefnum sínum og sinni sýn á stöðu mála. Það er sannarlega þakkarvert að fyrrverandi forsætisráðherra beitti sér fyrir því að Mats Josefsson færi í þau verk sem hann hefur verið að vinna.

En ég vil nefna út af orðum hv. þingmanns og fyrrverandi forsætisráðherra að það þarf að láta verkin tala miklu hraðar heldur en gert hefur verið í tíð síðustu ríkisstjórnar og vitna ég þá í Mats Josefsson en eftirfarandi var haft eftir honum á visir.is í gær, með leyfi forseta:

„Þá sagði Josefsson að ríkisstjórnin þyrfti líka að átta sig á nýju hlutverki sínu sem eiganda bankanna. Hún hefði ekki fyrr en nú sýnt að hún ætlaði að koma með meira stefnumarkandi hætti að rekstri og framtíðaruppbyggingu bankanna.“

Við yfirferð efnahagsáætlunar með Alþjóðagjaldeyrissjóðnum þarf að líta til breyttra aðstæðna í hagkerfinu enda virðist viðsnúningur hagkerfisins jafnvel hafa verið enn skarpari en búist var við í fyrstu. Verðbólgan virðist ekki ætla að verða jafnhá og búist var við fyrst eftir bankahrunið og allar líkur eru á að hún gæti jafnvel farið nokkuð hratt lækkandi á næstu mánuðum. Það eru jákvæðar vísbendingar.

Hins vegar er ljóst að atvinnuleysi verður mun meira en gert var ráð fyrir í upphafi og það er þegar orðið meira atvinnuleysi en spár Alþjóðagjaldeyrissjóðsins gerði ráð fyrir að yrði mest. Ákvarðanir ríkisstjórnarinnar sem stuðla að eflingu atvinnulífsins munu strax sporna við þessari þróun.

Til þess að raunverulegur viðsnúningur verði í atvinnulífinu skiptir hins vegar höfuðmáli að ljúka við enduruppbyggingu bankakerfisins og skapa aðstæður til lækkunar vaxta. Það hefur þegar verið stigið mikilvægt skref á fyrstu starfsdögum nýrrar ríkisstjórnar og ríkisstjórnin mun gera allt sem í hennar valdi stendur til að skapa þessar aðstæður sem fyrst. Þá verður mjög ákveðið framfylgt áformum um að beina framkvæmdum í verkefni sem eru þjóðhagslega arðbær, mannaflsfrek og gjaldeyrisskapandi.

Ég vil undirstrika að sú ríkisstjórn sem nú situr mun ekki skorast undan þeim erfiðu ákvörðunum sem nauðsynlegt er að taka í ríkisfjármálum. Um allt land eru heimili og fyrirtæki að taka til í sínum ranni og aðlaga stöðu sína erfiðum aðstæðum í efnahagslífinu. Ríkissjóður getur ekki og má ekki vera þar undanskilinn. Við verðum að takast á við þetta verkefni og sýna verulega aukið aðhald en nú er unnið að áætlun um útgjalda- og tekjuhlið ríkissjóðs til næstu fjögurra ára sem liggja mun fyrir þegar fulltrúar gjaldeyrissjóðsins koma til viðræðna við stjórnvöld.