136. löggjafarþing — 80. fundur,  12. feb. 2009.

efnahagsmál.

[15:26]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Það er ekki ofsögum sagt að íslenska þjóðin standi á örlagatímum nú eftir tæplega 18 ára valdatíma Sjálfstæðisflokksins. Það er ekki ósanngjarnt að segja að 99,5% af aðstæðum á Íslandi skrifist á ábyrgð fyrri ríkisstjórna fyrst og fremst undir forustu Sjálfstæðisflokksins, kannski svona 0,5% á ábyrgð þeirra ríkisstjórnar sem nú hefur starfað í tíu daga.

Samt virðist Sjálfstæðisflokkurinn fyrst og fremst vera upptekinn af þessum tíu dögum og hefur af þeim miklar áhyggjur en litlar áhyggjur af eigin viðskilnaði. Ég verð að segja að það er dálítið undarlegt að verða vitni að því að sjálfstæðismenn eyða aðallega tíma sínum hér í að reyna að auka óróa og búa til sögur um tilhæfulausa hluti eins og þeim að það standi yfir einhverjar hreinsanir eða að verið sé að bola mönnum út úr störfum. Eru þar t.d. nefndir fráfarandi formenn bankaráða Glitnis og Kaupþings.

Það rétta í því máli er að þeir menn höfðu samband við mig áður en ríkisstjórnarskipti urðu í ljósi þess sem þá var í vændum og lýstu áhuga sínum á því að hætta. Ég bað þá að bíða með allt slíkt og ræða við mig eftir að stjórnarskiptin hefðu orðið. Þeir komu aftur til mín og ég bað þá að hugsa sinn gang og ég áskildi mér rétt til þess að biðja þá um að sitja áfram. Þannig stóð málið þegar hæstv. fyrrverandi forsætisráðherra sjálfur tók málið upp hér og ræddi það við núverandi hæstv. forsætisráðherra. Það voru nú allar hreinsanirnar. Og þegar þeir höfðu svo bréflega óskað eftir því að hætta bað ég þá að sitja að minnsta kosti fram yfir aðalfund í bankanum.

Ég verð að segja að ég er undrandi yfir því hvernig Sjálfstæðisflokkurinn ætlar að leggja sitt af mörkum með alls konar flugeldasýningum og ólátum t.d. hér í þingsalnum. Það birtist manni einfaldlega þannig að Sjálfstæðisflokkurinn mígi í alla brunna sem hann sér og kveiki í öllu heyi sem hann finnur. Það er hans framlag til þess að leggja sitt af mörkum til stöðugleika í landinu.

Er það virkilega þannig að Sjálfstæðisflokkurinn hafi meiri áhyggjur af atvinnu tveggja til fjögurra flokksgæðinga en atvinnuleysi 13.000–14.000 manns? Það segir þá sína sögu um áherslu Sjálfstæðisflokksins. Aðaláherslan hjá þeim, aðalræðutími þeirra fer í slíka hluti en ekki hina grafalvarlegu stöðu sem þeir skilja eftir sig í íslenskum þjóðarbúskap.

Það er atvinnuleysið og hættan á landflótta sem eru mesta áhyggjuefnið. Ég tel að núverandi ríkisstjórn með aðgerðum sínum sem snúa að fjölskyldum, fyrirtækjum og endurskipulagningu fjármálakerfisins sé komin mjög vel á veg og hafi gert meira á tíu dögum en fyrri ríkisstjórn á mánuðum. Verið er að ná utan um það hvernig fjármálakerfið verður endurskipulagt. Unnið er kerfisbundið að því að koma því í farveg, að taka á málum nýju bankanna, að taka á málum sjálfstætt starfandi fjármálafyrirtækja, sem ég vona að leysist nú fyrir helgina, og að vinna að málefnum sparisjóðanna.

Varðandi vexti, gjaldeyrismál, verðbólgu, gengi krónunnar og aðra slíka hluti er forgangsverkefni að ná niður vöxtum. Það er forgangsverkefni. Og það skal vera alveg skýrt að þurfi fjármálaráðherrann að velja milli þess að draga úr gjaldeyrishömlum eða lækka vexti velur hann hið síðarnefnda. Það er tvímælalaust mikilvægasta forgangsverkefnið nú í þágu atvinnulífs og heimila, að ná niður vöxtum, og það verður áhersluatriði númer eitt í viðræðum við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn.

Til þess þurfum við m.a. að ná utan um það erlenda fé, jöklabréf og aðra slíka hluti sem eru á fóðrum í hagkerfinu. Það er líka forgangsverkefni til þess að vaxtalækkunarferlið geti farið af stað án þess að óróleiki skapist með gengi krónunnar. Vinnan í sambandi við undirbúning fjárlaga sem og eftirfylgni og framfylgni áætlunar stjórnvalda og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins er á eins eðlilegu spori og hún getur verið miðað við hversu illa fráfarandi ríkisstjórn hafði unnið en þar höfðu hlutir dregist talsvert á annan mánuð. Hlutir sem átti að vera lokið í desemberlok eru loksins núna að komast á blað í fjármálaráðuneytinu. Ég veit ekki í hvað janúarmánuður fór hjá forvera mínum á þeim stað.

En nú er búið að spýta í lófana og nú verða þessir hlutir unnir hratt. Ef listaðir væru t.d. upp þeir fundir sem núverandi ríkisstjórn hefur þegar átt með kröfuhöfum, með erlendum sendiherrum, með aðilum vinnumarkaðarins, (Forseti hringir.) sveitarfélögum, lífeyrissjóðum og öðrum slíkum (Forseti hringir.) spái ég því að það nálgist að vera jafnlangur listi og ríkisstjórn (Forseti hringir.) Geirs H. Haardes komst yfir á starfstíma sínum frá því 6. október og þangað til að hún sprakk. (Forseti hringir.)