136. löggjafarþing — 80. fundur,  12. feb. 2009.

efnahagsmál.

[15:54]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Fyrir rétt þremur vikum ræddum við hér á Alþingi skýrslu fyrrverandi hæstv. forsætisráðherra um stöðu efnahagsmála. Síðan þá hefur margt breyst. Samfylkingin hætti að verja hin efnahagslegu hryðjuverk sem unnin hafa verið á íslensku þjóðinni eftir að Framsóknarflokkurinn opnaði henni leið út úr myrkrinu. Núverandi ríkisstjórn með stuðningi Framsóknar vinnur hörðum höndum að því að hreinsa út skítinn eftir frjálshyggjudeild Sjálfstæðisflokksins sem náði næstum að leggja Ísland í rúst með 18 ára óstjórn á íslensku efnahagslífi. (JM: Með aðstoð Framsóknarflokksins.) Samfylkingin þarf að borga fyrir að hafa sofið á verðinum og verður að gera upp við fortíðina líkt og framsóknarmenn hafa þegar gert. Almenningur hefur því miður ekki enn orðið var við breytingarnar í bókhaldinu hjá sér. Fyrir þremur vikum voru um 12.000 manns á atvinnuleysisskrá, í dag eru þeir orðnir nærri 15.000. Á þessum þremur vikum hafa nær 3.000 manns misst vinnuna og þeim fjölgar enn.

Á meðan á þessu stendur snúast þingstörf sjálfstæðismanna aðallega um það að þyrla upp moldviðri í sölum Alþingis. Þeir gera sér grein fyrir því að ábyrgð þeirra á ástandinu er alger og reyna nú í örvæntingu að beina athygli almennings eitthvert annað. (Gripið fram í.) Smjörklípurnar hreinlega spýtast ofan úr Valhöll og innan úr Svörtuloftum og hingað inn á Alþingi. Sjálfstæðismenn fara hamförum við að verja það valdakerfi sem þeir hafa með mikilli eljusemi, pólitískum ráðningum og helberri spillingu byggt upp síðustu tvo áratugi og þeir ætla ekki að gefa það eftir. Skítt veri með íslenska þjóð og það sem á henni brennur.

Þetta gengur svo langt að heilu leikritin eru sett á svið til að reyna að gera störf ríkisstjórnarinnar tortryggileg og hindra framgang mikilvægra mála í þinginu. Þannig lagði hv. þm. Geir H. Haarde fram sérkennilega fyrirspurn á mánudag um pólitískar hreinsanir í bankaráðum og strax daginn eftir sögðu tveir formenn bankaráða af sér með mikilli viðhöfn. Það er ljóst að heragi Valhallar er slíkur að háttsettir liðsmenn láta sig umsvifalaust falla á sverðin berist þeim boð um það frá herforingjanum. Það væri óskandi að yfirhershöfðinginn í Svörtuloftum sæi sóma sinn í að gera slíkt hið sama.

En það er einmitt þessi hráskinnaleikur sem við höfum fengið nóg af. Því fyrr sem sjálfstæðismenn játa brot sín gagnvart íslensku þjóðinni, því fyrr getum við snúið okkur að því að byggja upp nýtt Ísland. Sjálfstæðismönnum er vorkunn því að eftir að hugmyndafræði þeirra hrundi til grunna vita þeir hreinlega ekki í hvorn fótinn þeir eiga að stíga, en það vitum við framsóknarmenn hins vegar vel.

Við ætlum okkur að byggja upp nýtt (GMJ: Þú ert með geislabaug!) Ísland á grundvelli samvinnu, samstöðu, sanngirni og sjálfsábyrgðar. Til að reisa íslenskan efnahag við þarf að grípa til alvöruaðgerða. Við þurfum að hefja strax viðræður við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn um að lækka stýrivexti. Vaxtalækkun verður að koma til fljótt eigi einstaklingar og fyrirtæki að eiga einhvern möguleika á því að komast af. Við þurfum að losa um gjaldeyrishöftin en til þess þurfum við að semja um jöklabréfin. Við þurfum að ráða erlenda sérfræðinga strax til að aðstoða okkur við að semja um Icesave-reikningana og þar má ekkert gefa eftir. Við þurfum að setja á stofn endurreisnarsjóð sem tekur lán hjá lífeyrissjóðunum og endurlánar fyrirtækjum og sveitarfélögum til atvinnusköpunar. Við þurfum að tryggja fjármögnun orkufyrirtækja á nýjum virkjunum og klára fjárfestingarsamning við Norðurál vegna Helguvíkur og sá samningur þarf að komast í gegnum þingið fyrir þinglok í vor. Við þurfum að tryggja fjármagn í markaðssetningu Íslands erlendis til að draga gjaldeyri til landsins með erlendum ferðamönnum.

Fyrir kosningarnar 1996 lofuðu framsóknarmenn 12.000 nýjum störfum og stóðu við það loforð. Við þurfum að taka höndum saman og hefja atvinnuuppbyggingu á ný. Þar höfum við framsóknarmenn ýmislegt til málanna að leggja. Það er það sem við þurfum, ekki innantómt karp um keisarans skegg.