136. löggjafarþing — 80. fundur,  12. feb. 2009.

efnahagsmál.

[16:06]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að víkja að því sem hv. síðasti ræðumaður fullyrti, að orð mín hér í vikunni hafi haft einhver úrslitaáhrif hvað það varðar að þessir bankaráðsmenn í þessum tveimur bönkum hafi sagt af sér. Þetta er bara fyrirsláttur hjá hv. þingmanni og hæstv. fjármálaráðherra lýsti því ágætlega hvernig aðdragandi málsins var. (GHH: Þeir segja það í bréfi sínu.) Þannig að ég vísa því á bug sem hv. þingmaður sagði.

Ég tek eftir því að þeir sjálfstæðismenn sem hafa talað óttast mjög að hér verði ríkisforsjá allt um kring í samfélaginu eftir að þessi ríkisstjórn tók við. Ég vil minna hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins á hvernig þeir skildu við eftir að taumlaus frjálshyggja hafði verið hér við lýði í næstum tvo áratugi. Þeir ættu að minnast þess þegar þeir óttast að ný ríkisstjórn sé komin til valda. Út af ríkisforsjánni vil ég minna á að Mats Josefsson sagði einmitt að ríkið yrði að taka meiri ábyrgð á bönkunum. Það er bara þannig, hvort sem mönnum líkar betur eða verr, að ríkið er komið með bankana í fangið. Ég held að þessi ríkisstjórn hafi gert meira á þeim stutta tíma sem hún hefur verið við völd en ríkisstjórnin sem Geir H. Haarde og sjálfstæðismenn hafa setið í á umliðnum árum.

Við höfum lagt grunn að því að hér verði hægt að standa að því að lækka vexti sem fyrst. Áætlun okkar, sem við munum kynna Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, byggir einmitt á því. Því miður hefur uppgjörið við bankana dregist, við erum mánuði á eftir í því efni og það þurfti svo sannarlega að taka til hendinni í fjármálaráðuneytinu til þess að við hefðum tilbúna þá áætlun sem fulltrúar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins vilja sjá þegar þeir koma hingað og er forsenda þess að við getum lækkað stýrivexti, sem ég tek undir að er forgangsverkefni í íslensku samfélagi. Við verðum að standa þannig að málum að það sé hægt og við verðum að endurreisa það traust sem nauðsynlegt er á alþjóðavettvangi í því sambandi. Þannig höfum við unnið að því.

Varðandi það sem hv. þm. Geir H. Haarde nefndi áðan að ég hefði ekki svarað og hefur áhyggjur af því að við ætlum að setja bönkunum útlánamarkmið, það er bara eðlilegt við þessar kringumstæður. Það er það sem gert er í löndunum, bæði vestan hafs og austan, við slík skilyrði eins og nú eru og við slíkar aðstæður. Við höfum lagt til hliðar 385 milljarða til að setja inn í bankakerfið. Ekki er óeðlilegt að við setjum bönkunum útlánamarkmið og það er allt annað en að hafa afskipti inn í bankana, allt annað.

Ég vil nefna það, af því að ýmsir sem hér töluðu höfðu áhyggjur af því að við hefðum ekki sett neitt í gang varðandi atvinnulífið, að það er ósanngjarnt að halda því fram, vegna þess að við höfum sett ýmislegt af stað og erum með annað í undirbúningi til að ræsa gangverk atvinnulífsins. Kannski er forsendan sem við leggjum upp með þær breytingar sem við erum að gera á bankakerfinu, svo að efnahagsreikningur þeirra geti orðið með þeim hætti að það geti fyrst og fremst þjónað litlum og meðalstórum fyrirtækjum. En við tökum þau 10 eða 15 stóru fyrirtæki sem eru komin mjög tæpt inn í þetta eignaumsýslufélag til endurskipulagningar. Ég held að þetta sé forsenda þess að við getum ræst atvinnulífið í gang á ný og komið (Forseti hringir.) fram með skilvirkt (Forseti hringir.) bankakerfi sem þjónar almenningi (Forseti hringir.) og fólkinu í landinu.