136. löggjafarþing — 81. fundur,  16. feb. 2009.

athugasemdir Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um seðlabankafrumvarpið.

[15:05]
Horfa

Geir H. Haarde (S):

Herra forseti. Fyrir viku birti forsætisráðuneytið yfirlýsingu þar sem fram kom að ekki væri unnt að birta umsögn eða athugasemdir frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum um seðlabankafrumvarpið vegna þess að sjóðurinn krefðist þess að trúnaður væri haldinn um þetta mál þrátt fyrir vilja forsætisráðherra. Ég grennslaðist fyrir um málið hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og sendi þangað tölvupóst og fékk svar þar sem eftirfarandi kemur fram, með leyfi forseta:

„Í samræmi við fastar vinnureglur ganga athugasemdir okkar til stjórnvalda og það er stjórnvalda að ákveða hvort þeim er dreift til annarra.“

Hér er verið að vísa til þeirra bráðabirgðaathugasemda sem spurt var um. Með öðrum orðum, það sem kom fram í yfirlýsingu forsætisráðuneytisins um þetta efni var ekki rétt. Það var ekki farið rétt með, það var ósatt þannig að ríkisstjórn hinnar miklu siðbótar, sem ætlar að beita sér fyrir breytingum á lögum um ráðherraábyrgð og auka gegnsæi á öllum sviðum, hefur gert sig seka um að fara rangt með í þessu máli. Hvers vegna? Hvers vegna var þessu haldið fram þegar þetta var ekki rétt? Það verður að birta hinar upphaflegu athugasemdir. Voru þær öðruvísi en þær athugasemdir sem síðar bárust? Óskaði ráðuneytið kannski eftir því að þeim væri breytt? Hvernig breyttist þessi umsögn?

Í leiðinni vil ég spyrja hæstv. forsætisráðherra hvort hún hafi leitað ráða hjá helstu trúnaðarmönnum forsætisráðuneytisins hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Þannig er að Ísland á tvo trúnaðarmenn í sjóðráði sem kallað er, í æðstu stjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, aðalfulltrúa og varafulltrúa Var leitað til þeirra og kannski vill ráðherrann upplýsa okkur hv. þingmenn um hverjir þeir fulltrúar eru?