136. löggjafarþing — 81. fundur,  16. feb. 2009.

athugasemdir Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um seðlabankafrumvarpið.

[15:10]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Herra forseti. Það er mjög sérkennilegt hvernig þessu er haldið fram af hv. þingmanni. Hv. þingmaður veit mætavel að við vorum beðin um trúnað við þessum fyrstu upplýsingum sem komu frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum að því er varðar tæknilegar ábendingar um frumvarpið. Hv. þingmaður veit mætavel að ég óskaði eftir því að trúnaði við þessar fyrri upplýsingar sem fram komu eða tæknilegu ábendingar frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, yrði aflétt. Svar þeirra var, eins og ég sagði áðan, að þeir mundu senda aðra umsögn sem gæti verið gerð opinber.

Hv. þingmaður veit líka mætavel að upplýsingalögin eru með þeim hætti að þar er ýmislegt sem snertir alþjóðastofnanir, og þar með Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, undanþegið almennri upplýsingaskyldu. Efnahagsskrifstofa ráðuneytisins sem hv. þingmaður þekkir mætavel fór með öll þessi samskipti fyrir okkar hönd og ég ítreka að við erum ekki að leyna einu eða neinu í ráðuneytinu í þessu efni. Hv. þingmaður ætti bara að sanna þetta.