136. löggjafarþing — 81. fundur,  16. feb. 2009.

íslenskt viðskiptaumhverfi.

[15:11]
Horfa

Helga Sigrún Harðardóttir (F):

Virðulegur forseti. Árið 2004 skipaði þáverandi hæstv. viðskiptaráðherra, Valgerður Sverrisdóttir, nefnd sem hafði það hlutverk að fjalla um íslenskt viðskiptaumhverfi. Sú nefnd starfaði undir formennsku núverandi hæstv. viðskiptaráðherra og hafði m.a. það hlutverk að koma með tillögur að lagabreytingum, m.a. með hliðsjón af hneykslismálum sem höfðu komið upp erlendis. Ítarlega var fjallað um löggjöf sem fellur undir félagarétt ekki hvað síst er varðar stjórnir og stjórnendur fyrirtækja.

Ein af tillögum meiri hluta nefndarinnar var að koma í veg fyrir að stjórnarformenn fyrirtækja væru jafnframt forstjórar eða framkvæmdastjórar á þeim forsendum að það er m.a. hlutverk stjórnar að hafa eftirlit með stjórnendum og því hefðu starfandi stjórnarformenn þar með eftirlit með sjálfum sér. Í því samhengi var vísað til fordæma í dönskum rétti og í gagnrýni á þetta fyrirkomulag sem tíðkast að einhverju leyti í Bandaríkjunum.

Þegar skýrsla nefndarinnar kom út og tillögur hennar voru kynntar er óhætt að segja að miklar mótbárur hafi komið fram um ýmislegt í skýrslunni, m.a. frá samtökum iðnaðarins og samtökum atvinnulífsins, sérstaklega hvað varðar tillöguna um að bann verði lagt við því fyrirkomulagi að stjórnarformenn gegni samhliða stöðu forstjóra eða framkvæmdastjóra. Einn nefndarmaður skilaði séráliti og taldi að reynsla af þessu fyrirkomulagi hefði verið góð og félag sem hafi þessa leið hafi náð eftirtektarverðum árangri, ekki síst í sókn sinni á erlenda markaði. Aðrir hafa hins vegar bent á að reynsla af þessu fyrirkomulagi hérlendis sé slæm, sérstaklega undanfarin missiri og það sé í besta falli ógagnsætt en jafnframt geti það gefið tækifæri til að hygla stærstu hluthöfum á kostnað þeirra minni og jafnvel séu skýrar vísbendingar um það.

Ég vil fyrst biðja hæstv. viðskiptaráðherra um álit hans á því hvort hann sé sammála því að núverandi fyrirkomulag um að starfandi stjórnarformenn hafi getað haft neikvæðar afleiðingar fyrir íslenskt viðskiptalíf á undanförnum árum og ef svo er hvort ráðherra muni beita sér fyrir breytingum hvað það varðar á hans stutta tíma í viðskiptaráðuneytinu.