136. löggjafarþing — 81. fundur,  16. feb. 2009.

ráðningar.

[15:22]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Mér finnst lágmark að hv. þingmaður fari rétt með. Það var hringt í þennan fyrrverandi aðstoðarmann fyrrverandi félagsmálaráðherra þar sem hann var staddur erlendis. Hann fékk þær upplýsingar að ég vildi gjarnan skipta þarna um eins og í ýmsum öðrum nefndum. Hann sagðist sýna því skilning. (Gripið fram í.) Hann fékk líka andmælarétt vegna þess að hann var boðaður á fund minn en hann gat ekki mætt og mætti ekki þó að hann hefði fengið þennan andmælarétt.

Ég spyr aftur: Finnst mönnum eðlilegt að trúnaðarmaður fyrrv. félagsmálaráðherra úr öðrum flokki sé æðsti yfirmaður (Gripið fram í.) í stjórnarnefnd um málefni fatlaðra sem fjallar um stefnumótandi mál? Ég ítreka, af því að sá þingmaður sem spyr kemur úr Sjálfstæðisflokknum, að þetta var rætt í ríkisstjórn einu sinni eða tvisvar. Menn vita að það er (Forseti hringir.) algengt að þessi háttur sé hafður á þegar um stjórnarskipti (Forseti hringir.) er að ræða. Ráðherrar úr fyrri ríkisstjórn hafa tjáð sig um þetta mál og fannst vera mjög sérkennilega að þessu máli staðið.