136. löggjafarþing — 81. fundur,  16. feb. 2009.

loðnuveiðar.

[15:25]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Mér er vel kunnugt um áhuga manna á því að gefnar verði út einhverjar raunverulegar veiðiheimildir og það er blóðugt að sjá dýrmætustu sólarhringa ársins renna hjá án þess að við getum farið að taka loðnu til frystingar og síðan hrognavinnslu. Það sem gert var í þessum efnum var að gefa út rannsóknarkvóta upp á 15 þús. tonn í byrjun síðustu viku. Ég ákvað að gera það þá og gera það strax til þess að auka líkurnar á því að með mælingum og rannsóknum mætti reyna á það til fulls hvort veiðanlegt magn fyndist miðað við þær reglur sem fylgt hefur verið í þessum efnum á undanförnum árum og byggja á ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar um það magn að lágmarki sem reynt er að skilja eftir til að tryggja hrygningu og viðhald stofnsins.

Það verður að segjast eins og er, því miður, að slíkar mælingar hafa enn ekki gefið tilefni til bjartsýni á að stofninn reynist nægjanlega stór þannig að unnt sé að gefa út veiðikvóta. 15 þúsund tonnin eru í raun gefin út þó að mælingar hafi sýnt að enn vanti nokkuð upp á að stofninn nái þeirri 400 þús. tonna viðmiðun sem þarna er miðað við. Í raun koma þau því til frádráttar frá því magni sem búið var að mæla. Búið var að mæla stofninn upp á 385 þús. tonn eða þar um bil.

Það er því miður einfaldlega þannig að enn vantar algerlega forsendur fyrir því að gefa út meiri veiðiheimildir og þá eru menn komnir að því að velta öðrum hlutum fyrir sér. Ef það er engu að síður gert, hvaða trúverðugleiki verður þá í þeirri ráðgjöf og þeirri aðferðafræði sem við byggjum þessa hluti á? Svo sárlega sem okkur vantar meiri verðmæti í þjóðarbúið og svo ákaflega vel sem það kæmi sér fyrir sjávarútvegsfyrirtækin geta menn ekki horft fram hjá hinni hlið málsins sem er einfaldlega sú að við verðum að taka ábyrga afstöðu. Miklir hagsmunir eru í húfi, ekki bara núna og ekki bara fyrir þjóðarbúið og fyrirtækin í dag heldur fyrir framtíðina líka, að við tökum ekki óverjanlega áhættu gagnvart viðkomu mikilvægustu nytjastofna.

Svarið er því einfaldlega það (Forseti hringir.) að á þessu stigi málsins get ég engu lofað um það og ekki gefið nein fyrirheit eða (Forseti hringir.) neinar væntingar um að hægt sé að gefa út meiri kvóta.