136. löggjafarþing — 81. fundur,  16. feb. 2009.

breyting á niðurgreiðslu lyfjakostnaðar.

[15:33]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Væri ekki nær að gera þetta eða hitt? Forveri minn í embætti skrifaði mikla grein í Morgunblaðið um helgina og sagði hvað hann hefði haft á prjónunum en ég spyr: Hvers vegna framkvæmdi maðurinn ekki?

Sjálfstæðisflokkurinn átti hlut að því að samþykkja fjárlög fyrir þetta ár. Þar er gert ráð fyrir að ríkið færi niður lyfjakostnað um 1.000 millj. kr. Forveri minn í starfi hafðist ekki að þannig að tveir mánuðir líða af árinu án þess að breyting verði hér gerð á. Við þurfum því í reynd að ná inn 1.300 millj. kr. til að þessar 1.000 millj. kr. komi inn á ársgrundvelli.

Það sem gert var var að hækka gólf og þök í kerfinu um 10% en eins og réttilega kom fram í máli hv. þm. Ástu Möller hefur neysluvísitalan hækkað um 60% frá því að síðast var um hækkun að ræða. Hér er því um brot af raunverulegri verðlagsþróun að ræða. Hins vegar er gripið til ráðstafana til að beina lyfjaneyslu í landinu inn í farveg ódýrari lyfja í ríkari mæli en gert hefur verið áður. Alls spörum við þarna um 650 millj. kr. en reglugerð sem var á vinnsluborði og var reyndar undirrituð á síðasta degi sem hæstv. ráðherra sat í ráðuneytinu, þó að dagsetningin væri önnur, gerði ráð fyrir 100 millj. kr. sparnaði. Ég er einfaldlega að fara að fjárlögum sem hv. þm. Ásta Möller greiddi atkvæði í þinginu.

Við skulum bara biðja fólk um að vera sæmilega sjálfu sér samkvæmt. Ég er að framkvæma (Forseti hringir.) ákvörðun fjárveitingavaldsins. Ég geri það á eins réttlátan máta og hægt er, (Forseti hringir.) við tökum út fyrir sviga atvinnulausa, börnin, öryrkjana og hlífum þeim.