136. löggjafarþing — 81. fundur,  16. feb. 2009.

breyting á niðurgreiðslu lyfjakostnaðar.

[15:37]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Þetta er ósatt sem fram kemur hér í máli hv. þm. Ástu Möller. Hún ætti að kynna sér reglugerðina sem lá fyrir frá hæstv. forvera mínum, fyrrverandi heilbrigðisráðherra, og hann undirritaði á síðasta degi þótt dagsetningin væri önnur. Hún gerði ráð fyrir 100 millj. kr. sparnaði. Sú reglugerð sem ég hef undirritað gerir ráð fyrir mun hærri upphæð, um 650 millj. kr.

Ráðherrann fyrrverandi hafði ætlað að afgreiða reglugerð sem var líkleg til að verða til vinsælda fallin en skilja eftir í skálinni nokkrar beiskar pillur handa mér. Við hefðum með hans reglugerð ekki náð … (Gripið fram í.) Við hefðum ekki náð þeim niðurskurði sem hv. þm. Ásta Möller greiddi atkvæði hér fyrir áramótin. (Gripið fram í.) Það sem við gerðum með þessari nýju reglugerð var að tryggja félagslega réttláta aðkomu. Við tökum atvinnulausa út fyrir sviga. (Gripið fram í.) Það var ekki gert ráð fyrir því í reglugerð sem hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson undirritaði á síðasta degi. Og það er umhugsunarefni og ætti að vera umræðuefni hvernig ráðherrar báru sig að eftir að hæstv. fyrrverandi forsætisráðherra, Geir H. Haarde, (Forseti hringir.) baðst lausnar fyrir sig og ráðuneyti sitt. (Forseti hringir.) Þá fóru ráðherrar sínu fram í þinginu. Mér finnst það ósiðlegt og þetta er þáttur sem við ætlum að taka sérstaklega til könnunar og umræðu.