136. löggjafarþing — 81. fundur,  16. feb. 2009.

ummæli ráðherra og beiðnir um utandagskrárumræður.

[15:41]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég tek því fagnandi að taka umræðu um heilbrigðismálin og hæstv. forseti hefur beint því til mín að við tökum slíka umræðu. Ég gef skýrslu í þinginu næstkomandi fimmtudag og það er mér ánægjuefni að gera það. Þar mun ég m.a. koma inn á þessi mál, t.d. þá reglugerð sem hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson undirritaði á síðasta starfsdegi sínum og var frábrugðin þeirri sem ég undirritaði núna í síðustu viku. Við skulum bara fara mjög rækilega yfir það og yfir vinnubrögðin líka, yfir þær beisku pillur sem hv. þingmaður ætlaði mér að framfylgja og síðan hvað var á prjónunum hjá honum.

Ég mun þá líka spyrjast fyrir um hvað hafi valdið þeirri ákvarðanafælni sem hlýtur að hafa verið til staðar í ráðuneytinu af hálfu hæstv. fyrrverandi ráðherra. Hvernig stóð á því að ekki var gengið frá reglugerð í byrjun árs í stað þess að láta einn sjötta hluta ársins líða? Hvers vegna var ekki tekin ákvörðun? (Gripið fram í.) Reglugerðin sem samþykkt var gerir ráð fyrir sparnaði (Forseti hringir.) fyrir Tryggingastofnun upp á 650 millj. kr. en sú reglugerð sem hv. þingmaður (Forseti hringir.) hafði undirritað er með mun lægri upphæð, um 100 millj. kr. Þetta eru staðreyndir málsins.